spot_img
HomeFréttirThe Pimp: Er hann fáanlegur á Íslandi?

The Pimp: Er hann fáanlegur á Íslandi?

17:12
{mosimage}

(The Pimp að kynda undir mannskapnum í Crailsheim)

Oftar en ekki á íslenskum kappleikjum má heyra saumnál detta og stöku gamalmenni ræskja sig í stúkunni á meðan kappleikur fer fram. Í boltagreinunum fjórum, körfubolta, fótbolta, handbolta og blaki er ansi oft nokkuð hljóðlátt í stúkunni á hinum almenna deildarleik. Vissulega er fjörið meira þegar í úrslitakeppni eða aðra stórleiki er komið en þar á milli er þögnin næstum því óbærileg á köflum.

Undirritaður var staddur í Þýskalandi um síðastliðna helgi og fylgdist með er Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson varð deildarmeistari með Proveo Merlins í þýsku Pro B deildinni. Heljarinnar stemmning var á pöllunum og sagði Jóhann svo hafa verið í allan vetur þrátt fyrir að Merlins væru í þriðju efstu deild. Húsið rúmar um 2000 áhorfendur og sagði Jóhann fullt á öllum heimaleikjum. Merlins mættu Hannover Tigers um síðustu helgi og fögnuðu deildarmeistaratitlinum frammi fyrir fullu húsi en heimavöllur Merlins er minni en allir heimavellirnir í Iceland Express deild karla!

Áhorfendur voru vel með á nótunum, miklu betur en hér heima, og tóku allir undir þegar ,,The Pimp“ hálfgerður andlegur leiðtogi stuðningsmanna Merlins steig út á gólf. Það var sama hvert uppátækið hjá The Pimp var, allir í stúkunni tóku undir! Hér heima á t.d. körfuboltaleikjum er það Miðjan hjá KR sem ber af, Pumasveitin í Keflavík lætur endrum og sinnum heyra í sér en að öðru leiti er stuðningur við liðin í Iceland Express deild karla og kvenna óreiðukenndur.

Stöku klapp og einstaka stuðningsrokur þegar mikið liggur við láta á sér kræla en það er enginn einn stuðbolti á míkrófóninum sem heldur áhorfendum við efnið og satt best að segja myndi slíkur aðili eflaust falla illa í kramið hjá íslenskum íþróttaunnendum, eða hvað?

Að fylgjast með The Pimp að störfum í Þýskalandi var hreint út sagt magnað, hann hoppaði og skoppaði um allan völl, sagði brandara, hvatti fólk áfram í hinum ýmsu söngvum og látum á pöllunum og stýrði áhorfendaskaranum frá upphafi til enda. Mér segir svo hugur að The Pimp eigi bara töluvert í glæstum árangri Merlins þennan veturinn en framkvæmdastjóri Merlins tjáði undirrituðum að þessi magnaði stuðbolti hefði fundist við sölu á gallabuxum og öðrum tískuvarningi og hefði ekki haft neitt vit á körfubolta. Bara stuðbolti frá náttúrunnar hendi. Öll þekkjum við einhvern af þeim meiði og ef ekki væri nema eina kvöldstund á kappleik að við gætum fellt ofursvölu grímuna okkar, sleppt fram af okkur beislinu í stuðningi og látum þá er aldrei að vita nema að fleiri deildarleikir gætu komist í hálfkvist við úrslitakeppnina okkar í körfuboltanum hvað stemmninguna varðar.

Mín tillaga er því sú að félögin í úrvalsdeildum grafi djúpt ofan í gullkistuna sína og finni Pimpinn sinn, laði fram stuðboltann sem kveikir í áhorfendum. Að þessu sögðu er töluverðu fargi varpað yfir á stuðningsmenn liðanna, þeir sjái sér fært um að mæta með gleðina við völd og leyfi kátum kappa eða duglegri dömu að keyra sig áfram í fjörinu. Eftir þennan eina leik í Þýskalandi kann ég fjölda þýskra stuðningssöngva en fáir eru þeir á ástkæra ylhýra sem ég gæti sungið stafrétt.

Vel getur verið að undirritaður sé að tapa sér í þýska ljómanum sem hann varð vitni að um síðustu helgi og staðreyndin sé einfaldlega sú að liðin séu mörg á Íslandi, leikirnir margir og aðgöngumiðar oft dýrir og að við séum fámenn og allt þar fram eftir götum, þetta eru samt fullyrðingar sem sannir stuðningsmenn láta sem vind um eyru þjóta.

Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is
[email protected]

(Þá ber að nefna að á körfuboltaleikjum í Þýskalandi er leyfð sala áfengis í íþróttahúsum og þegar Merlins urðu deildarmeistarar seldist bjórinn í stríðum straumum. Allir fóru vel með Bakkus konung og 2-3 glerflöskur sáust brotnar í húsinu að veisluhöldunum loknum. Þetta innskot greinarhöfundar var honum mjög svo hugfangið um helgina enda vart nauðsynlegt að spyrja að leikslokum ef áfengi yrði selt í glerflöskum á íslenskum kappleikjum!)

Fréttir
- Auglýsing -