spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞægilegur fyrsti sigur Keflavíkur eftir hátíðarnar

Þægilegur fyrsti sigur Keflavíkur eftir hátíðarnar

Keflavík lagði Hamar í Blue höllinni í kvöld í 12. umferð Subway deildar karla, 100-88. Eftir leikinn er Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 8 sigra á meðan að Hamar er enn á botninum án sigurs eftir fyrstu tólf umferðirnar.

Fyrir leik

Hamar hafði farið í gegnum nokkrar breytingar yfir hátíðarnar, í stað Jalen Moore voru Dragos Diculescu og Aurimas Urbonas komnir í lið þeirra og þá hafði Danero Thomas yfirgefið liðið, til þess að ganga til liðs við Keflavík.

Liðin mættust í fyrsta leik deildarkeppni þessa tímabils, en þá hafði Keflavík sigur í nokkuð spennandi leik.

Gangur leiks

Eftir að hafa skorað fyrstu körfu leiksins sjá gestirnir í Hamri ekki mikið til sólar í fyrsta leikhlutanum. Ná að setja einhver stig á töfluna, en ráða lítið við Keflavík sóknarlega. Staðan eftir fyrsta fjórðung, 31-17. Keflvíkingar hafa svo enn góð tök á leiknum undir lok fyrri hálfleiks og eru 15 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja, 52-37.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Remy Martin með 18 á meðan að fyrir Hamar var Franck Kamgain kominn með 14 stig.

Með góðu áhlaupi um miðjan þriðja fjórðung nær Keflavík mest að komast 24 stigum yfir, 74-50. Reyndist það nokkur vendipunktur í leiknum þar sem að Hamar náði illa að klóra sig til baka úr því, en staðan fyrir lokaleikhlutann var 81-60 heimamönnum í vil. Heimamenn ná að halda Hamri í þægilegri fjarlægð í upphafi fjórða fjórðungs. Hamar missir Daða Berg Grétarsson úr leiknum um miðjan fjórðunginn er hann meiddist á hnéi. Hans menn virðast ná að þjappa sér aðeins saman og ná að koma forystunni í 8 stig þegar um 2 mínútur eru til loka, 94-86. Nær komast þeir þó ekki og undir lokin siglir Keflavík nokkuð öruggum sigur í höfn, 100-88.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Keflavíkur í kvöld var Remy Martin með 33 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Hamar var það Franck Kamgain sem dró vagninn með 34 stigum.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst komandi miðvikudag 10. janúar gegn Tindastóli í Blue höllinni, en degi seinna fær Hamar lið Vals í heimsókn í Hveragerði.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -