Skallagrímur vann góðan sigur á Grindavík í annari umferð Dominos deildar karla í kvöld. Leikurinn var æsispennandi í lokin en ekki nóg með að Grindavík hafi tapað leiknum heldur varð liðið fyrir áfalli í lok leiks.
Terrell Vinson leikmaður Grindavíkur meiddist þá illa á hné þegar þrjátíu sekúndur voru eftir af leiknum. Nokkra mínútna töf varð á leiknum meðan gert var að meiðslum leikmannsins.
Samkvæmt heimildum Körfunnar litu meiðslin vægast sagt illa út og var Vinson sárþjáður á gólfinu í Fjósinu. Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur sagði í viðtali við Körfuna eftir leik um meiðsli Vinsons „Ég var bara hræddur við hann þegar ég var að tékka á honum, hann var svo hræddur og þjáður. Við verðum bara að bíða og sjá.“
Einnig í viðtali við Körfuna sagði Daníel Guðni Guðmunsson aðstoðarþjálfari Grindavíkur að það væri ekki orðið ljóst hversu alvarleg meiðslin væru. „Þetta leit illa út og ég held að það kunni allir að leggja saman tvo og tvo.“
Þar gefur Daníel til kynna að meiðsli Vinsons séu að alvarlegu tagi og spurning hvort eitthvað sé slitið í hnéi Vinsons. Sé svo er ljóst að Vinson mun ekki leika mikið meir á þessu tímabili.
Króatískur leikmaður Skallagríms Matej Buovac meiddist einnig í seinni hálfleik leiksins og missti af stórum hluta hans. Hann mun hafa snúið sig illa á ökkla en vonast sé til að meiðslin séu ekki alvarleg.