8:00
{mosimage}
Monique Martin bætti stigametið í efstu deild kvenna um níu stig, skoraði 59 stigum meira en næsti maður í KR-liðinu og skaut Keflavíkurliðið af toppnum. Fyrirliðinn sá á henni í byrjun leiks að hún væri sjóðheit.
Monique Martin, bandarískur framherji hjá kvennaliði KR, varð á miðvikudagskvöldið fyrsta konan til þess að skora yfir 60 stig í einum og sama leiknum í efstu deild. Martin skoraði 65 stig í 90-81 sigri KR á Keflavík en KR fór á toppinn með sigrinum.
„Ég er mjög ánægð og líður mjög vel því við unnum mjög góðan sigur á Keflavík. Það skiptir litlu máli fyrir mig hversu mörg stig ég skora ef við vinnum leikinn. Þetta var góður leikur og við hugsuðum bara um að gera það sem við höfðum verið að gera á æfingunum fyrir leikinn. Ég vissi að ef við næðum að fylgja því myndum við vinna og það tókst," sagði Monique Martin um leikinn.
Martin hefur skorað 38,4 stig að meðaltali í 9 leikjum sínum í KR-búningnum en að auki hefur hún tekið 15,6 fráköst að meðaltali í leik. „Ég vil bara gera það sem þarf til þess að vinna leikinn, hvort sem það er að skora, taka fráköst eða spila góða vörn. Ég var bara í stuði í leiknum og hvað get ég í rauninni sagt. Keflavíkurliðið gaf mér hvað eftir annað opin skot og ég var bara að setja þau niður," segir Martin. Monique skoraði 21 stig úr þriggja stiga skotum í leiknum, 18 stiga hennar komu inni í teig og 16 eftir hraðaupphlaupum.
Martin var með 12 stig af vítalínunni en hún nýtti 92,3 prósent víta sinna og setti niður 23 af 37 skotum sínum sem gerir 62 prósent skotnýtingu. Monique talaði um að ættingjar sínir í Bandaríkjunum hefðu ætlað að horfa á leikinn í gegnum KRTV á netinu en það klikkaði eitthvað hinum megin við Atlantshafið.
„Þau náðu ekki að horfa á leikinn en ætla að fá að taka upptöku af leiknum og sýna þeim um jólin," segir Martin, sem er bjartsýn á framhaldið. „Við erum að standa okkur vel enda erum við að leggja mikið á okkur á æfingum. Þessar ströngu æfingar eru farnar að skila sér inni á vellinum. Ég tel okkur vera með nógu gott lið til þess að verða meistari en þá þurfum við að standa okkur jafnvel í leikjunum og á æfingum. Takist það munum við berjast um titilinn," segir Martin.
Monique bætti tæplega fimm ára met landa síns Denise Shelton um heil níu stig. Shelton skoraði 56 stig í 92-95 tapi Grindavíkur fyrir ÍS í framlengdum leik sem fram fór í Grindavík 29. janúar 2003. Ebony Dickinson átti metið í venjulegum leiktíma en hún skoraði 52 stig í 78-67 sigri KFÍ á Tindastól á Sauðárkóki 11. desember 1999.
„Ég sá það strax í fyrstu sóknunum í leiknum að hún væri sjóðandi heit. Það var um að gera fyrir okkur að nýta það. Hún er snögg að bruna upp völlinn og það er gaman að geta kastað boltanum fram á hana," sagði Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR, sem átti 9 stoðsendingar í leiknum, þar af sex þeirra á Monique.
Martin skoraði 17 fyrstu stig KR-liðsins í leiknum og var með 25 af 27 stigum liðsins 1. leikhluta. Hún átti síðan stoðsendinguna á bak við körfuna sem gaf hin tvö stigin. Hildur segir Martin passa vel inn í KR-liðið sem hefur nú unnið öll lið deildarinnar í einni röð og níu af síðustu tíu leikjum.
„Hún er voða feimin að eðlisfari en er aðeins að komast betur og betur inn í hópinn. Í gær var hún rosalega hógvær og þótti nóg um alla athyglina sem hún fékk. Það hefur örugglega skipt máli að hún er að finna sig betur innan hópsins og þá líður henni betur inni á vellinum. Hún er líka búin að sjá það út hvað hún þarf að gera til þess að hjálpa liðinu því hún er rétta manneskjan í þennan hóp," segir Hildur.
www.visir.is – [email protected]
Mynd: [email protected]