Garðbæingar leggja í dag land undir fót og mæta í Stykkishólm þar sem þeir leika gegn Snæfell í undanúrslitum Poweradebikarsins. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Stykkishólmi og við á Karfan.is tókum Teit Örlygsson þjálfara Stjörnunnar tali. Teitur sagði að Stjörnumenn hafi verið virkilega ósáttir við deildarleikinn sinn gegn Snæfell en liðið mæti nú breytt til leiks.
Undanúrslitin í dag er það lengsta sem Stjarnan hefur komist í bikarnum síðan þið urðuð meistarar 2009, er mikið rætt við ykkur um þennan 2009 leik gegn KR, skyggir hann jafnvel á þessa bikarkeppni fyrir ykkur í augnablikinu?
Við látum ekki keppnina 2009 trufla okkur, það eru aðeins minningar, góðar minningar. Frekar að við notum þann leik sem “motivation”.
Allir heilir og klárir í slaginn gegn Snæfell?
Já, allir heilir.
Megum við fá nasaþefinn af hernaðaráætlun Stjörnunnar í leiknum?
Við höfum haft góðan tíma fyrir þennan leik og undirbúningur eftir því (eins hjá öllum liðum), þess vegna má búast við góðum leikjum. Við höfum skoðað Snæfell og reynum að meta þeirra styrki, hvar sé hægt að hægja á þeim og þess háttar. Höfum ekki unnið þá í vetur og vorum virkilega ósáttir við okkar leik gegn þeim í deildinni. Mætum nú með dálítíð breytt
lið, og höfum trú á því að það skipti miklu máli varðandi “match ups” á báðum endum vallarins.
Keflavík-Grindavík, hvort liðið fer upp úr þessum leik og í Höllina?
Úff, veit ekki, það er ekkert auðvelt að vinna í Keflavík, þetta er 50/50 leikur og vonlaust að spá. Ræðst á síðutsu mínútu.
Áttu von á því að Garðbæingar fjölmenni í Hólminn?
Vona það svo sannarlega, fengum góðan stuðning í Hólminum í fyrra og unnum góða sigra þar. Okkur líður vel í Hólminum og enn betur þegar okkar fólk gerir sér ferð til að hvetja okkur líka.