Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður hjá Morgunblaðinu veltir Domino´s leikjum karla fyrir sér en fjögur stykki fara fram í kvöld. Í kristallskúlunni sér hann þrjá heimasigra og einn útisigur.
Snæfell-Tindastóll
Himinn og jörð þurfa falla saman ef Tindastóll á að vinna Snæfell í Hólminum. Snæfell er einfaldlega miklu betra lið og með fullkominn árangur á heimavell enn sem komið er. Þetta getur auðveldlega orðið ljótt. Snæfell vinnur með +15 stigum.
Njarðvík-KFÍ
Það er eitthvað svo rangt við að nota nafn Njarðvíkur við klisjuna fjögurra stiga fallslagur en sú er staðreyndin fyrir græna stórveldið. Þetta er mikilvægur leikur fyrir ljónin til að missa ekki Ísfirðingana fjórum stigum frá sér en langt frá því að vera gefinn þó hann sé í Ljónagryfjunni. KFÍ-liðið er ólseigt og að skora furðurlega mikið á útivelli miðað við stöðuna í deildinni. Maður verður þó að hafa trú á heimamönnum. Ef þeir vinna ekki svona leiki gæti farið illa hjá Njarðvík í deildinni. Njarðvík vinnur með undir 5 stigum.
Grindavík-Stjarnan
Sæll, Finnur, hér erum við að tala um stórleik. Grindavík er nú þegar búið að tapa tveimur leikjum í deildinni og mér finnst holningin á liðinu akkurat núna ekkert allt of sannfærandi. Þetta verður held ég “hvort liðið vill þetta meira”-leikur og gestirnir eru með mann sem heitir Teitur Örlygsson sem þjálfara. Hann vill alltaf allt meira en aðrir. Kæmi mér ekki á óvart að hann myndi hlaða í eina góða olnbogapumpu eftir sigur í spennuleik.
Keflavík-Skallagrímur
Keflvíkingar eru að vakna eftir þyrnirósarsvefn og vinna Skallana örugglega á heimavelli. Borgnesingar verða erfiðir framan af leik en síðan mun Keflavík stinga af.