Undir 20 ára lið Íslands tapaði rétt í þessu fyrir Þýskalandi, 77-63 í 16 liða úrslitum A deildar Evrópumótsins í Chemnitz í Þýskalandi. Ísland fellur því úr leik en þátttöku okkar er ekki lokið þar sem leikið er um öll sæti mótsins og mikið í húfi að reyna að halda sætinu í A-deild.
Ísland fór skelfilega af stað og tapaði fyrsta leikhluta 29-5 þar sem liðið var með ellefu tapaða bolta. Eftir það var einfaldlega munurinn orðinn of mikill og Ísland átti ekki möguleika að koma til baka. Íslenska liðið lagaði þó stöðuna töluverk í lokafjórðungnum þar sem Árni Elmar Hrafnsson var sjóðheitur og setti fjórar þriggja stiga körfur í röð. Lokastaðan var þó 77-63 eftir hetjulega lokabaráttu Íslands.
Atkvæðamestur í íslenska liðinu var Árni Elmar Hrafnsson með 17 stig á sextán mínútum en Bjarni Guðmann Jónsson var með 16 stig. Lykilleikmenn Íslands hittu ákaflega illa í leiknum og hitti liðið til að mynda 9/41 fyrir utan þriggja stiga línuna.
Tapið þýðir að Ísland mun leika um 9-16 sæti deildarinnar og er næsti leikur gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið. Ísland mun mæta Úkraínu á morgun kl 18:15 og mun sigurliðið leika um 9-12 sæti deildarinnar. Þrjú lið falla niður í B-deild og þýðir tap á morgun að Ísland þarf að vinna síðustu tvo leiki sína á mótinu ef það ætlar að halda sæti sínu í A-deild.
Upptaka af leiknum: