Heil umferð fer fram í Iceland Express deild karla í dag svo óhætt er að slá því föstu að sannkölluð veisla sé framundan. Nú eru aðeins tvær umferðir eftir fram að jólafríi og í kvöld verða heilir sex leikir, heil umferð og því í mörg horn að líta. Í boði verður Reykjavíkurrimma, möguleiki á bikarhefnd og sigurganga Snæfells í deildinni getur komist upp í sjö leiki!
Leikir kvöldsins hefjast allir kl. 19:15 og þrír þeirra verða í beinni netútsendingu á KR TV, Fjölnir TV og Haukar TV. Þá verður allt vaðandi í lifandi tölfræði hjá KKÍ svo þeir sem komast ómögulega ekki á völlinn geta engu að síður fylgst grannt með gangi mála þó það sé svo miklu margfalt skemmtilegra að mæta á svæðið og styðja við bakið á sínu liði.
Leikir kvöldsins:
Hamar-Snæfell
KR-ÍR
Fjölnir-Grindavík
Keflavík-Tindastóll
Njarðvík-KFÍ
Haukar-Stjarnan
Hamar-Snæfell
Verður það enn eitt stórliðið sem lýtur í lægra haldi gegn Hamarsmönnum þessa leiktíðina eða vinnur Snæfell sinn sjöunda deildarsigur í röð? Hvergerðingar verða án þjálfara síns í kvöld, Ágústar Björgvinssonar, sem tekur út leikbann en bæði lið freista þess að komast á réttan kjöl eftir að hafa verið slegin út úr bikarkeppninni á dögunum.
KR-ÍR
Þennan ,,derby-slag” þarf vart að kynna nokkrum manni, þó staða liðanna sé ólík í deildinni þarf ekkert að skeggræða um að ÍR mætir og mun gera allt í sínu valdi til að leggja erkifjendurna. KR átti magnaðan leik í bikarnum gegn Hamri um daginn og spurning hvort þeir haldi áfram á þeirri braut.
Fjölnir-Grindavík
Grindvíkingar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum á útivelli í deildinni en eru í 2. sæti með 14 stig. Fjölnismenn eru í 7. sæti með átta stig og bæði lið í góðum gír eftir sterka bikarsigra á dögunum, hvort liðið mætir klárt og hvort staldrar of lengi við bikarsigurinn og gleymir sér í kvöld? Eða fáum við hörkuleik, það þykir svona líklegast.
Keflavík-Tindastóll
Keflavík kolféll úr bikarnum gegn Stólunum um daginn og að mæta Keflavík tvisvar í röð í Toyota-höllinni er ekki verkefni fyrir neina pappakassa. Tindastóll lék án Friðriks Hreinssonar í bikarnum sem stefnir að því að vera með í kvöld og ekki vanþörf á þar sem fastlega má reikna með brjáluðum Keflvíkingum. Þetta verður styrjöld og þá brosa tveir menn út að eyrum, þeir heita Gunnar Einarsson og Helgi Rafn Viggósson, fylgist vel með þeim í kvöld.
Njarðvík-KFÍ
Um þessar mundir eru Ísfirðingar í djúpum dal, hafa tapað sex deildarleikjum í röð en eitthvað er að lifna yfir Njarðvíkingum eftir deildarsigur gegn Haukum og frækinn bikarsigur gegn Snæfell. Shiran Þórisson er nýtekinn við KFÍ og Vestfirðinga lengir nú eftir sigri, kemur hann í kvöld eða eru grænir komnir á sporið?
Haukar-Stjarnan
Hafnfirðingar hafa tapað síðustu þremur deildarleikjum og þá lá Stjarnan í síðustu umferð, tvö lið hér á ferðinni sem hungrar í stig. Um þessar mundir er Stjarnan í 6. sæti með 10 stig en Haukar eru í 9. sæti með 6 stig og geta með sigri í kvöld komið sér aðeins fjarri botnbaráttunni um sinn en vafalítið hefur Teitur Örlygsson þjálfari Garðbæinga önnur plön.
Þá er einn leikur í 1. deild karla í kvöld þegar Höttur tekur á móti Breiðablik á Egilsstöðum kl. 18:30.
Ljósmynd/ Sean Burton”son” verður í Hveragerði í kvöld, hvar verður þú?