Israel Martin mun taka við sem þjálfari nýliða Tindastóls í Subway deild kvenna fyrir komandi tímabil, en honum til aðstoðar verður Hlynur Freyr Einarsson. Tilkynnir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.
Israel ætti að vera Skagfirðingum kunnur, en hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá félaginu 2014 til 2019 með hléum. Besti árangurinn náðist 2018 þegar liðið vann Bikarmeistaratitil, sinn fyrsta stóra titil, og spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Israel Martin hefur 12 ára reynslu sem aðalþjálfari, á Íslandi, Kosovo og í Danmörku auk þess sem hann hefur verið í þjálfarateymum yngri landsliða Íslands, aðallega U18 og U20.
„Dagurinn í dag er góður dagur fyrir mig og fjölskyldu mína, það eru merk tímamót að skrifa undir nýjan samning við Tindastól. Það er bókstaklega að koma heim. Fyrir 10 árum síðan gaf Tindastóll mér tækifæri til að skapa starfsferil á Íslandi og á Sauðárkróki byggðum við upp fjölskyldu okkar. Fimm árum eftir að við fórum erum við jafn glöð og hamingjusöm að koma aftur og í fyrsta skiptið. Ég er stoltur og glaður að taka við kvennaliði Tindastóls og mun sinna starfinu af ábyrgð, alúð og festu. Áfram Tindastóll!” Sagði Israel við undirritun samninga.
Heimamaðurinn Hlynur Freyr Einarsson er Tindastólsfólki einnig góðkunnur. Hann er spilaði upp alla yngri flokka félagsins og upp í meistaraflokk. Árið 2018 spilaði hann með liði Selfoss í 1.deild auk þess að þjálfa yngri flokka félagsins. Frá árinu 2020 hefur hann þjálfað hjá Þór Akureyri og síðastliðinn vetur verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna sem náði góðum árangri í Subway deildinni.
„Ég er spenntur fyrir komandi tímabili og verður gaman að starfa aftur undir merkjum Tindastóls.“ segir Hlynur.
Dagur Þór, formaður Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir það mjög ánægjulegt að bjóða þá Israel Martin og Hlyn Frey velkomna heim á Krók. “Meistaraflokkur kvenna er kraftmikill hópur, samheldinn og metnaðarfullur sem hefur sýnt það að þær eiga fullt erindi í deild þeirra bestu og þær eiga mikið inni. Undanfarin tímabil í Subway deildinni hefur það sýnt sig að það er áskorun að halda úti kvennaliði sem vill geta keppt meðal þeirra bestu. Það er verkefni okkar allra sem komum að Körfuknattleiksdeild Tindastóls að standa vörð um kvennaliðið og byggja það upp til framtíðar. Israel Martin hefur þá þekkingu og reynslu sem þarf til að leiða liðið áfram og uppá næsta stig og það er sérstaklega ánægjulegt að fá Hlyn Frey honum til aðstoðar, sem hefur mikla hæfileika og metnað í þjálfun. Það verður spennandi að fylgjast með stelpunum taka sín fyrstu skref í Subway deildinni á næsta tímabili.”