Íslandsmeistarar Vals eru á fullu að undirbúa liðið fyrir titilvörnina á næsta tímabili. Fyrr í dag skrifaði Sylvía Rún Hálfdánardóttir undir samning við liðið og mun leika með því á komandi leiktíð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Val.
Tilkynning Vals er hér að neðan:
“Sylvía Rún Hálfdanardóttir skrifaði í dag undir samning við Íslandsmeistara Vals um að spila með liðinu næstu tvö tímabil. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sylvía Rún getið sér gott orð á körfuboltavellinum undanfarin ár. Hún hefur spilað með öllum landsliðum Íslands og var t.a.m. valin í fimm manna úrvalslið B-deildar Evrópumóts undir 18 ára árið 2016 en þá náði landsliðið besta árangri sínum frá upphafi. Sylvía Rún hóf ferilinn hjá Haukum en lék í 1. deildinni með Þór Akureyri á síðasta tímabili.
Sylvía Rún fór á algjörum kostum í 1. deildinni sl. vetur. Hún var með 21,7 stig, 12,3 fráköst 5,1 stoðsendingu og 25,8 í framlag að meðaltali í leik.
Darri Freyr um leikmannninn: „Sylvía Rún er fjölhæfur leikmaður sem mun styrkja liðið frá fyrstu æfingu. Hún getur spilað margar stöður á vellinum og spilar alltaf af fullum krafti. Sylvía mun enn frekar auka samkeppnina innan liðsins og ákefð á æfingum sem eru meðal lykilforsenda árangurs Valsliðsins. Hún átti stórkostlegt tímabil í fyrstu deildinni hvar tölfræðin talar sínu máli um fjölhæfni Sylvíu. Við munum gera okkar besta til þess að hjálpa henni við að byggja ofan á þessa velgengni og verða mikilvægur hluti Valsliðsins komandi ár.“
Sylvía Rún um vistaskiptin: „Er mjög spennt fyrir að spreyta mig með Valsliðinu í Dominosdeildinni næstu misserin. Valsliðið er fráberlega mannað og það verður gaman að fá að vera partur af þessu liði. Ég hlakka til að leggja mitt að mörkum fyrir félagið bæði innan sem utan vallarins.“
Á meðfylgjandi mynd má sjá Sylvíu Rún og Darra Frey Atlason við undirskrift samnings fyrr í dag.