Stjarnan heldur áfram að styrkja sig fyrir komandi tímabil í Dominos deild kvenna. Frá því var greint í dag að 3 nýjir leikmenn hefðu gert samning við félagið. Erlendur leikmaður, leikstjórnandinn Danielle Rodriguez, úr Utah háskólanum bandaríska, Sigrún Guðný Karlsdóttir, ung og efnileg stelpu úr Ármanni og nýjasta leikmaður íslenska A-landsliðsins Sylvía Rún Hálfdánardóttir úr Haukum.
Við ræddum stuttlega við Sylvíu varðandi vistaskiptin og hafði hún þetta að segja:
"Það var allt annað en auðvelt að breyta um lið. Ég var búin að ákveða Hauka, en síðan fann ég að ég þurfti breytingu.
Ég er mjög ánægð með mig að taka þessa ákvörðun og skipta yfir í Stjörnuna.
Ég er ekkert nema spennt fyrir komandi tímabili. Frábærar stelpur sem eru í þessu liði. Ég segi nú bara að allir eiga möguleika á að vinna titil þetta tímabil þannig því ekki við"
Fréttatilkynning Stjörnunnar:
Danielle, Sigrún og Sylvía til Stjörnunnar
Þrír leikmenn til viðbótar hafa gengið til liðs við leikmannahóp Stjörnunnar í meistaraflokki kvenna og er því liðið orðið fullmannað fyrir komandi tímabil.
Danielle Rodriguez er 22 ára leikstjórnandi sem er að hefja sitt fyrsta ár sem atvinnumaður. Hún útskrifaðist frá Utah og er 178 cm á hæð. Hún var með 9,8 stig, 4,2 stoðsendingar og 3,6 fráköst að meðaltali í háskólaboltanum.
Sigrún Guðný Karlsdóttir er 15 ára gömul og er ung og efnileg stelpa er kemur frá Ármanni. Hún hefur æft með meistaraflokki frá því í sumar og mun spila með meistaraflokki og unglingaflokki en Stjarnan og Ármann munu tefla fram sameiginlegu liði í unglingafflokki.
Sylvía Rún Hálfdanardóttir er að verða 18 ára gömul og er ein af efnilegri leikmönnum landsins en hún stóð sig virkilega vel með 18 ára landsliðinu í sumar ásamt því að hafa spilað sína fyrstu A-landsliðsleiki núna í haust.
Stjarnan biður Dani, Sigrúnu og Sylvíu innilega velkomnar til Stjörnunnar.
Skíni Stjarnan