Undir 16 ára stúlkna tapaði naumlega í dag fyrir Svíþjóð á Norðurlandamótinu í Kisakallio. Liðið hefur því unnið einn og tapað þremur eftir fyrstu fjóra leikina, en á morgun mæta þær Finnlandi í lokaleik mótsins.
Gangur leiks
Íslenska liðið mætir nokkuð vel til leiks og taka forystuna um leið. Ná mest 7 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en eru 4 á undan þegar að fjórðungurinn er á enda, 15-11. Stúlkurnar ná svo áfram að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, voru bæði að skjóta boltanum vel sem og var þeim að takast að vinna frákastabaráttuna. Líkt og í leik gærdagsins á móti Eistlandi voru villuvandræði farin að hafa áhrif á leikinn snemma, þar sem tveir byrjunarliðsleikmenn Íslands fengu sína þriðju villu um miðjan annan leikhlutann. Svíþjóð nær aðeins að ganga á lagið, en Ísland þó 3 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-27.
Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Lengi framan af þriðja leikhluta gengur báðum liðum illa að skora, en svo fara skotin að detta og liðin skiptast á forystu í nokkur skipti. Þegar fjórðungurinn er á enda er staðan jöfn, 44-44. Með snörpu 8-2 áhlaupi nær Ísland forystunni aftur í byrjun fjórða leikhlutans. Ísland enn 6 stigum yfir þegar rétt tæpar 5 mínútur eru eftir, 54-48, en rétt áður fá stigahæstu leikmenn Íslands í leiknum, Erna Snorradóttir og Anna María Magnúsdóttir sínar fimmtu villur. Svíþjóð nær að nýta sér það, hlaða í 7-0 áhlaup og taka forystuna á nýjan leik þegar rúmar 2 mínútur eru eftir, 54-55. Leikurinn er svo jafn þegar að slétt mínúta er eftir, 55-55. Svíþjóð nær að komast nokkrum stigum yfir á lokamínútunni, en Ísland gerir vel í að búa sér til lokaskot sem því miður geigar og niðurstaðan því þriggja stiga tap Íslands, 59-62.
Atkvæðamestar
Erna Ósk Snorradóttir var best í liði Íslands í dag með 14 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar, en liðið var +17 með hana á vellinum í leiknum. Henni næst var Anna María Magnúsdóttir með 12 stig og 5 fráköst.
Kjarninn
Íslenska liðið var flott á löngum köflum í þessum leik. Ekkert ólíkt leik gærdagsins gegn Eistlandi voru þær einnig með forystuna góðan skerf í dag. Einnig eins og í gær þá lenda þær snemma í villuvandræðum og eiga hreinlega erfitt með að ná í körfur á lokamínútum leiksins eftir að tveir stigahæstu leikmenn liðsins settust á bekkinn með fimm villur. Aftur, kannski eins og í gær, alls ekki alslæmt, þær vonandi ná að loka mótinu með sigri á morgun.
Hvað svo?
Lokaleikur liðsins á mótinu er kl. 16:45 á morgun að íslenskum tíma gegn heimastúlkum í Finnlandi.