spot_img
HomeFréttirSvíar næsta víst úr leik í B-deildinni

Svíar næsta víst úr leik í B-deildinni

15:00
{mosimage}

(Jonas Jerebko og félagar í sænska liðinu eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn Svartfjallalandi)

Að lokinni riðlakeppninni í B-deild karla í Evrópukeppninni er ljóst hvaða fjögur lið munu leika til úrslita um tvö laus sæti í A-deild á næsta ári. Allt útlit er fyrir að Svíar þurfi að bíta í það súra epli að hafa ekki árangur sem erfiði í B-deildinni að þessu sinni þar sem þeir mæta Svartfellingum í undanúrslitum.

Í Evrópukeppninni í B-deild er fyrirkomulagið þannig að fjögur lið fara áfram. Þrjú efstu liðin í hverjum riðli og svo liðið með besta árangurinn í 2. sæti einhvers riðilsins. Að þessu sinni voru Svíar með besta árangurinn í 2. sæti í C-riðli og voru þar jafnir Georgíumönnum að stigum en Georgíumenn höfðu betur innbyrðis. Bæði lið unnu 7 leiki og töpuðu einum.

Svíar mæta því liðinu með besta árangurinn sem eru Svartfellingar en þeir höfðu yfirburðasigur í A-riðli þar sem þeir léku ásamt Íslendingum. Svartfellingar unnu alla sína leiki og það með nokkrum yfirburðum í A-riðli og því mæta þeir Svíum. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Georgía og Hvít-Rússar sem höfðu sigur í B-riðli deildarinnar. Ekki skal spáð fyrir um þá viðureign en sigurliðin sem koma upp úr undanúrslitum leika í A-deild Evrópukeppninnar á næstu leiktíð. Eina spurningin er, hver mætir Svartfellingum í úrslitarimmu B-deildar?

Hins vegar væri gaman fyrir frændur okkar af Norðurlöndum að geta strítt Svartfellingum lítið eitt en eins og margir boltafræðingar hafa haft á orði þá eru Svartfellingar einfaldlega allt of sterkir til þess að leika í B-deildinni.

Þess má svo geta að undanúrslitin hefjast um helgina, laugardaginn 5. september þegar Svíar taka á móti Svartfellingum og Hvít-Rússar fá Georgíumenn í heimsókn. Leikið er heima og að heiman og sigurvegari úr þessum tveimur leikjum kemst áfram í úrslit, og í A-deildina.

[email protected]
Mynd: FIBA

Fréttir
- Auglýsing -