09:54
{mosimage}
(Sverrir Þór í nágrannaslag gegn Njarðvík)
Sverrir Þór Sverrisson er á meðal elstu og reyndustu leikmanna Iceland Express deildarinnar um þessar mundir en Sverrir á að baki glæstan 16 ára feril í úrvalsdeild. Sverrir gerði 10,6 stig að meðaltali í leik með Keflavík á síðustu leiktíð í 16 deildarleikjum. Karfan.is náði í skottið á þessum 34 ára gamla bakverði þeirra Keflvíkinga sem á von á því að Keflavík tefli fram öflugu liði á næstu leiktíð.
Þú ætlar að vera með Keflavík í baráttunni á næstu leiktíð? Fyrir einn af öldungunum í deildinni er þetta mikil aukavinna sem þú leggur á þig við að halda þér í forminu?
Ég hef alltaf verið í fótbolta á sumrin þannig að maður dettur ekki úr formi.
Hvað áttu mörg ár í þér eftir í boltanum?
Vonandi 3 eða 4 ár, ef ég held mér í formi og hef jafn gaman af þessu og ég hef haft þá held ég áfram.
Hver er grunnurinn að því að ná jafn löngum ferli og þú hefur náð? Orðinn hvað, 16 ára langur ferill í úrvalsdeild?
Ég myndi segja að það sé að æfa vel og sleppa við meiðsli og svo er það lika félagsskapurinn sem heldur manni í boltanum.
Á öllum þessum árum er það eitthvað sérstakt sem stendur upp úr í körfunni hjá þér?
Allir titlarnir og Evrópuleikirnir hjá okkur Keflvíkingum,sérstaklega fyrsta árið okkar í Evrópukeppninni, þá var mikil stemmning í kringum leikina.
Gætir þú hugsað þér að snúa þér aftur að þjálfun meistaraflokka?
Já ég á örrugglega eftir að snúa mér að þjálfun ,bara spurning hvenær ég helli mér út í það.
Verða einhverjar róttækar breytingar á Keflavíkurliðinu í sumar?
Ég held að við höldum sama liði og í fyrra þannig að við verðum með öflugt lið. Ég tel marga af okkar leikmönnum hafa grætt mikið á síðasta tímabili með því að hafa fengið stór hlutverk í fjarveru útlendinganna, Sigurður Þorsteinsson og Hörður Axel t.d eru að verða með bestu mönnum í deildinni, ég veit ekki hvort einhverjir bætist við hópinn þannig að það verða sennilega ekki miklar breytingar.