spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSverrir Þór: Full fær að berjast um titla

Sverrir Þór: Full fær að berjast um titla

Nú þegar hausta tekur þá fara liðin í körfunni að skipta um gír og hefja fullan undirbúning fyrir veturinn. Þrátt fyrir að þó nokkur tími sé í að deildarkeppni hefst þá ætlum við hjá Karfan.is að byrja að taka púlsinn hjá þjálfurum liðanna og kanna hvernig staðan er. Við hefjum leik á Sverri Þór Sverrissyni sem hefur endurkomu sína í þjálfarastólinn hjá kvennaliði Keflavíkur eftir smá pásu. “Já við höfum æft nokkuð vel í sumar en setjum allt á fullt núna.” sagði Sverrir aðspurður um komandi vikur.

Sem fyrr þá taka liðin alltaf einhverjum breytingum yfir sumarið og heimkoma Thelmu Ágústsdóttur í heimahaga vegur ansi þungt á styrkingu hópsins. “Ég á ekki von á meiri breytingum á hópnum, er með stóran og góðan hóp sem ég er ánægður með.” sagði Sverrir aðspurður um hópinn og frekari breytingar á honum.

Pressan er yfirleitt vel yfir miðlungsmörkum þegar umræða um titla er á kvennaboltanum í Keflavík enda lang sigursælasta lið landins. ” Við teljum okkur vera með mannskap sem er fullfær að berjast um titla í vetur en gerum okkur fulla grein fyrir því að deildin er sterk og við þurfum að leggja mikla vinnu á okkur til að eiga möguleika á titlum. Framundan eru bæði styrktar og liðsæfingar en ég verð ekki kominn með allan hópinn fyrr en seinni hluta ágúst vegna landsliðsverkefna ásamt því að erlendu leikmenn okkar koma ekki fyrr en seinni hluta ágúst. Svo er líklegt að liðið fari í æfinga/keppnisferð innanlands í september. ”

Keflavíkurliðið tók ansi duglegan kipp á síðasta tímabili undir stjórn Harðar Axels Vilhjálmssonar og þrátt fyrir að engir titlar hafi komið í hús þá bætti liðið sig töluvert frá árinu áður. “Já liðið stóð sig heilt yfir vel á síðasta tímabili og flestir leikmenn frá í fyrra eru ennþá ásamt góðri viðbót.” sagði Sverrir og bætti við að einhverjar áherslubreytingar yrðu líkt og alltaf þegar nýjir þjálfarar koma til starfa. “Þjálfarar hafa sínar áherslur og pælingar og ég fókusa algjörlega á það sem ég hef trú á , við erum með breiðan hóp og eigum að geta spilað af miklum krafti í 40 mínútur án þess að einhver leikmaður þurfi að hvíla sig inná vellinum.”

Aðspurður svo um mótherja sína í deildinni sagði Sverrir það ótímabært að meta að fullu þó svo að ákveðin mynd væri komin á blað “Það er svo erfitt að meta liðin áður en þau eru orðin fullmönnuð, nokkur lið með góðan Íslenskan kjarna og ef þau hitta á góða erlenda leikmenn þá eru þau líkleg í titlabaráttu Giska samt á að 4-5 lið verði vel á undan hinum liðunum.”

Fréttir
- Auglýsing -