Sverrir Þór var þungur á brún að leikslokum eftir tapið gegn Haukum
Ef við horfum fram í tímann – Keflvíkingar hljóta að hafa trú að því að það sé betra að hafa heimaleikjarétt í úrslitakeppninni?
Jú að sjálfsögðu. En staðan er bara sú að við erum bara miðlungslið! Þó við séum ofarlega í deildinni þá höfum við verið í hörkuleikjum, við höfum verið að vinna sterk lið og merja lið sem eru neðar í deildinni. Hugarfarið hjá okkur er engan veginn nógu gott, við tölum um hluti og förum yfir þá, svo komum við í leiki og þá erum við bullandi hver í okkar horni! Eins og staðan er núna erum við bara miðlungslið. Ég hef minni áhyggjur af einhverjum heimavallarrétti, ég vil bara nota tímann núna á næstu vikum og mánuðum til þess að verða betri – við erum amk. ekki að spila eins og topplið núna. Hver og einn í okkar liði þarf virkilega að taka til í hausnum á sér.
Vandamálið virðist vera einkum andlegs eðlis eða hvað – hópurinn er mjög sterkur?
Kannski ekki…á pappír er hópurinn okkar sterkur en ég er með alltof marga leikmenn sem eru að hafa áhyggjur af því hvað þeir eru að spila margar mínútur í sumum leikjunum en þeir hafa engar áhyggjur af því hvort þeir séu að gera eitthvað inn á vellinum á þessum mínútum. Meðan að það er hugsunin þá erum við í vandræðum. Við verðum betri þegar menn fatta að þeir þurfa að nota mínúturnar sem þeir fá til að skila alvöru framlagi.
En ef við skoðum þennan leik aðeins, Haukar voru mikið að fjölmenna á Craion og þið náðuð ekki að svara því, það stoppaði allt hjá ykkur sóknarlega?
Já algerlega. Haukarnir gerðu bara mjög vel, en við vorum mikið að stoppa á sömu stöðum að reyna að hnoðast í staðinn fyrir að hreyfa boltann betur. Það var vandamálið alltof lengi – við margtöluðum um það að hreyfa boltann betur, taka lengri sóknir og fara ekki alltaf í pikk og ról strax, það var ekki að virka en við héldum því samt áfram einhverra hluta vegna. Þetta var mjög dapurt hjá okkur. Ég held að það séu of margir í mínu liði sem eru að ofmeta sjálfa okkur.
Hvað er að frétta af Mantas?
Hann er í Litháen út af vinnunni. Ég veit ekki alveg hvernig þetta verður, en hann verður væntanlega meira með en þetta liggur ekki alveg ljóst fyrir með vinnuna hjá honum.
Viðtal: Kári Viðarsson