spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSvekkjandi tap Þórsara gegn Val á Akureyri

Svekkjandi tap Þórsara gegn Val á Akureyri

Þórsarar mættu grimmir til leiks í kvöld þegar þeir tóku á móti Val í 9. umferð Subway deildarinnar og það var ljóst frá fyrstu mínútu að heimamenn ætluðu að selja sig dýrt. Þórsarar leiddu nánast allan fyrsta leikhlutann og náðu mest sjö stiga forskoti 17:10 um miðjan leikhlutann en gestirnir jöfnuðu 19:19 þegar ein og hálf mínúta lifði af fjórðungnum. Þór komst aftur yfir og leiddi með þremur stigum 25:22 þegar annar leikhlutinn hófst.

Þór leiddi leikinn fram í miðjan fjórðunginn en gestirnir komust yfir 31:32 en Þórsarar komust strax yfir og leiddu mest með 5 stigum en aðeins munaði einu stigi á liðunum í hálfleik þar sem Þór leiddi 41:40.

Í fyrri hálfleik var Dúi Þór atkvæðamestur Þórs með 12 stig og þeir Eric og Reggie með 8 stig hvor. Hjá gestunum var fyrirliðinn Kristófer Acox með 13 stig og Pablo með 9.

Framan af þriðja leikhluta skiptust liðin á að leiða leikinn en smá saman náðu gestirnir yfirhöndinni en leiddu þó aldrei með meir en 3 stigum. Valur vann leikhlutann með þremur sigum og leiddu því 56:57 þegar lokakaflinn hófst.

Þórsarar byrjuðu fjórða leikhlutann með krafti og eftir tveggja og hálfs mínútna leik var Þór komið með 9 stiga forskot 68:59. Þarna var kraftur í liðinu og stemninginn í höllinni frábær hljómaði eins og húsið væri fullt af áhorfendum sem þó voru einungis 90.

En um miðjan fjórða leikhlutann varð vendipunktur í leiknum þegar fyrrum leikmaður Þórs, Pálmi Geir kom inn á og setti niður tvo þrista og skaut þannig gestunum inn í leikinn 73:71 og fjórar mínútur til leiksloka. Í kjölfarið setti Kristófer Acox niður tvist og jafnaði leikinn 73:73.

Þarna var eiginlega eldsneytið á þrotum og á þeim fjórum mínútum sem eftir lifðu skoruðu gestirnir 2:5 og kláruðu leikinn með fjögurra stiga sigri 75:79.

Þórsliðið lék sinn besta leik í kvöld og í raun grátlega nærri því að landa fyrsta sigrinum. Það er einnig afar sorglegt og í raun dýrt að atvinnumaður eins og Reggie skili ekki meir en hann gerði í kvöld. Hann kláraði kvótann í fyrri hálfleik með 8 stig en sóknarleikurinn þar var hann vægast sagt klaufalegur. Bouna getur gert betur og bara verður að skila meiru. Aðrir leikmenn Þórs komust vel frá sínu og Dúi Þór einfaldlega bestur í kvöld með 21 stig.

Hjá gestunum voru þeir Pablo og Kristófer Acox frábærir. Acox skoraði 21 stigi og tók 20 fráköst og Pablo var með 26 stig.

Framlag leikmanna Þórs: Dúi Þór 21/5/5, Eric Fongue 18/3/1, Jérémy 10/4/2, Bouna 10/3/4, Reggie 8/9/2, Ragnar 8/7/0. Að auki spiluðu þeir Kolbeinn Fannar og Baldur Örn en þeir komust ekki á blað.

Framlag leikmanna Vals: Pablo Cesar 26/8/6, Kristófer Acox 21/20/3, Benedikt 8/4/4, Callum 8/2/1, Sveinn Búi 7/3/0, Pálmi Geir 6/8/0, Hjálmar 3/3/0.

Gangur leiks eftir leikhlutum 25:22 / 16:18 (41:40) 15:17 / 19:22 = 75:79

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir og texti Palli Jóh, spyrill í viðtölum Guðmundur Ævar Oddsson

Fréttir
- Auglýsing -