Svendborg Rabbits sem Craig Pedersen þjálfar ásamt Arnari Guðjónssyni tapaði í dag fyrir Bakken bears 75-73 eftir að hafa leitt stærstan hluta leiksins. Leikurinn var leikinn í Herning fyrir framan 5540 áhorfendur sem er met í Danmörku.
Tveir leikir í deildinni voru leiknir í dag í Boxen í Herning, fyrst mættust Hörsholm og Randers þar sem Randers sigraði 97-85 og á eftir léku Bakken og Svendborg. Stefnan var sett á að fá 10 þúsund áhorfendur í höllina en það gekki ekki eftir þó met hafi verið slegið, 5540 áhorfendur. Fyrra metið var sett í Árósum fyrir rúmum 5 árum þegar tæplega 5000 manns mættu á heimaleik hjá Bakken.
William Paul var stigahæstur Svendborg manna með 27 stig en stigahæstur Bakken manna var Jonas Zohore með 14. Bakken hefur nú unnið tvo fyrstu leiki sína, fyrst Randers 112-110 eftir tvíframlengdan leik og svo Svendborg í dag með 75-73 eftir mjög jafnan leik. Svendborg vann fyrsta leik sinn í vetur þegar þeir unnu Hörsholm og eru því með 1 sigur og 1 tap.