Undir 18 ára lið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Eistlandi í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 74-79. Liðið því tapað einum leik og eru fjórir eftir af mótinu, en næst eiga þær leik á morgun gegn Danmörku.
Fyrir leik
Vert er að merkja það að í þennan íslenska hóp vantaði einn besta leikmann landsins í þessum árgöngum Ísoldi Sævarsdóttur, en hún mun ekki vera með liðinu á þessu Norðurlandamóti vegna anna í frjálsum íþróttum. Samkvæmt heimildum Körfunnar mun hún þó vera með liðinu þegar það fer á Evrópumót til Rúmeníu í byrjun ágúst.
Í byrjunarliði Íslands í leiknum voru Kolbrún María Ármannsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir, Bára Björk Óladóttir, Anna María Magnúsdóttir og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir.
Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Liðin skiptust á snöggum áhlaupum og var það oftar en ekki Eistland sem var skrefinu á undan. Þegar fyrsti fjórðungur er á enda munar tveimur stigum á liðunum, 17-19. Eistland opnar annan leikhutann á 14-0 áhlaupi. Íslenska liðið nær að stöðva blæðinguna undir lok leikhlutans, en munurinn er þó 12 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-46.
Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kolbrún María Ármannsdóttir með 8 stig, Heiðrún Hlynsdóttir með 7 stig og Elísabet Ólafsdóttir einnig með 7 stig.
Snemma í seinni hálfleiknum er íslenska liðið komið í nokkuð alvarleg villuvandræði, þar sem þrír byrjunarliðsleikmenn þeirra Kolbrún María, Anna María og Fjóla Gerður eru allar komnar með fjórar villur. Með þær á bekknum nær Eistland aðeins að ganga á lagið í þriðja leikhlutanum og ná mest 18 stiga forystu. Ísland nær þó aftur að spyrna við og klóra sig aftur inn í leikinn undir lok fjórðungsins. Staðan 56-62 fyrir lokaleikhlutann. Leikurinn helst svo nokkuð jafn vel inn í fjórða leikhlutann, en þegar fimm mínútur eru til leiksloka munar aðeins tveimur stigum á liðunum, 67-69. Á lokakaflanum nær Eistland aftur smá tökum á leiknum og Ísland var þó ekki langt undan og með tæpa mínútu eftir fékk Ísland tækifæri til að jafna leikinn sem gekk ekki. Undir lokin nær Eistland að kreista út sigur, 74-79.
Atkvæðamestar
Kolbrún María Ármannsdóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 21 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Henni næstar voru Anna María Magnúsdóttir með 10 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar og Elísabet Ólafsdóttir með 12 stig og 3 fráköst.
Kjarninn
Íslenska liðið lék ágætis leik í dag fyrir utan stutta kafla í öðrum og þriðja leikhluta þar sem þær töpuðu alltof mörgum boltum og leyfðu alltof margar auðveldar körfur á varnarhelmingi vallarins. Gerðu þó vel að vinna sig aftur inn í leikinn eftir að hafa verið tæpum 20 stigum undir og gera þetta að leik á lokamínútunum.
Hvað svo?
Liðið á leik næst á morgun þriðjudag á sama tíma 13:45 gegn Danmörku.