Sveinn Búi Birgisson mun samkvæmt heimildum Körfunnar halda vestur um haf og ganga til liðs við háskólalið Siena Saints fyrir næsta tímabil.
Sveinn Búi var á mála hjá Íslandsmeisturum Vals í vetur og skilaði 3 stigum og frákasti á um 10 mínútum að meðaltali í leik á tímabilinu. Á síðasta tímabili lék hann fyrir Selfoss í fyrstu deildinni og átti frábæran vetur, skilaði 12 stigum og 6 fráköstum að meðaltali í leik.
Sveinn Búi hefur verið fastamaður í öllum íslenskum yngri landsliðunum og lék stórt hlutverk hjá U20 liðinu í Eistlandi síðasta sumar. Hann hóf sinn körfuboltaferli ungur að árum í Val ásamt því að leika með Ármanni og KR í yngri flokkunum.
Siena Saints eru staðsettir í Albany í New York ríki Bandaríkjanna og leika í MAAC í fyrstu deild bandaríska háskólaboltans.