spot_img
HomeFréttirSveiflur og sveigjur hjá meisturunum

Sveiflur og sveigjur hjá meisturunum

Haukar mættu í heimsók í Stykkishólm og hittu fyrir Snæfell. Liðin byrjuðu sem sagt þar sem þær enduðu síðustu leiktíð, en alloft tókust liðin á síðasta tímabil. Það fór svo að Snæfellsstúlkur höfðu sigur í leiknum 65-60 eftir sveiflur og sveigjur.
 
 
Leikurinn fór rólega af stað og liðin að þreifa á hvoru öðru með stirðar sóknir þá sér í lagi hjá Snæfelli þegar líða fór á fyrsta hluta. Haukar brugðu á það ráð að stela boltum auðveldlega og komast inní sendingar á meðan Snæfell drógu ýsur. Þetta gaf Haukum 9-0 áhlaup og staðan 4-15. Snæfellsstúlkur vöknuðu við það og náðu að laga stöðuna 14-17 eftir fyrsta fjórðung.
 
Leikmenn beggja liða urðu einebittari og Snæfell mjakaðist fram úr 18-17. Jafnræði var með liðunum í öðrum fjórðung og staðan í hálfleik 28-26.
 
Kristen McCarthy var komin með 14 stig og 5 fráköst í hálfleik og Gunnhildur Gunnarsdóttir 11 stig. Hildur Sigurðar hafði skorað 4 stig tekið 6 fráköst og gefið 5 stoðsendingar. Í liði gestanna úr Hafnarfirði var Lele Hardy komin með 17 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar. Sylvía Rún 9 stig og 5 fráköst, María Lind var með 8 stig.
 
Þvílíka vörnin sem Snæfell setti upp, strax í þriðja fjórðung, var hreint afbragð og sóknirnar komu með, en þolið entist í þrjár mínútur. Snæfell komust í 34-29 en þá áttuðu Haukar sig á hvers kyns var og stoppuðu. Dagbjört rak einn stuðnaglann í körfunna og kom þremur stigum á töfluna 34-32 og Haukaliðið komst á bragðið. Allt sem Snæfell var að gera vel fóru þær að gera illa og öfugt hjá Haukum sem snéru dæminu við og leiddu 39-47 eftir þriðja fjórðung.
 
Snæfell virtist ekki vera í takt við leikinn og virtust ekki alveg með jafnvægið í lagi í leik sínum. En um miðjan fjórða hluta gerðist eitthvað. Staðan var 48-57 og þær aðeins að rétta úr kútnum, hófu þá að pressa betur, stela öllu steini léttara (aðallega boltanum) og komu Haukum úr sínum leik. Helga Hjördís setti smá blóð á tennurnar með þrist, 53-57, og Gunnhildur Gunnars kom þeim svo yfir með öðrum 59-57. Úr varð 16-0 kafli Snæfells sem leiddu í einni svipan 64-57 og skein í örlítinn meistarabrag. Snæfellsstúlkur kláruðu sig á síðustu mínútunum og sigruðu 65-60.
 
Snæfell: Kristen McCarthy 21/7 frák/6 stolnir boltar. Gunnhildur Gunnarsdóttir 17/4 frák/4 stolnir. Hildur Sigurðardóttir 10/6 frák/7 stoðs/5 stolnir. Helga Hjördís 8. Hugrún Eva 3. María Björnsdóttir 2/4 frák. Berglind Gunnars 2. Rebekka Rán 2. Alda Leif 0. Rósa Kristín 0. Anna Soffía 0.
 
Haukar: Lele Hardy 24/19 frák/9 stoðs. Sylvía Rún 11/7 frák. Dagbjört Samúelsdóttir 9. María Lind 8. Guðrún Ósk 6/6 frák. Auður Íris 2/5 frák/4 stolnir. Dýrfinna Arnardóttir 0. Rósa Björk 0. Inga Sif 0. Þóra Kristín 0. Sólrún Inga 0. Inga Rún 0.
 
Símon B Hjaltalín
  
Fréttir
- Auglýsing -