Svavar Atli Birgisson er mættur aftur til leiks með Tindastól en hann lék í rúmar 16 mínútur í sigri liðsins gegn Þór Þorlákshöfn í gærkvöld. Einhverjar vangaveltur höfðu verið um það hvort Svavar væri endanlega hættur en svo er nú aldeilis ekki enda kappinn næstum búinn að landa tvennu í gærkvöldi í sínum tvöhundruð og fimmtugasta leik fyrir félagið.
Svavar gerði 8 stig fyrir Stólana í gær og reif niður 11 fráköst á þessum 16 mínum en kvaðst í samtali við Karfan.is hafa verið „pínu ryðgaður.“
„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt, maður er pínu ryðgaður en ætli maður taki nú ekki einhverja leiki í vetur, svona til upprifunar,“ sagði Svavar Atli léttur á manninn en Karfan.is náði eldsnöggt á hann í gærkvöldi.
Ryðgaður já…8 stig, 11 fráköst og 12 framlagsstig.