Tindastólsmenn hafa ekki riðið feitum hestum frá bikarkeppnum KKÍ en liðið hefur aldrei orðið bikarmeistari og hefur ekki komist í 8-liða úrslit keppninnar síðan árið 2004 en þá lágu Stólarnir 87-88 á heimavelli gegn Snæfell. Karfan.is ræddi við Svavar Atla Birgisson leikmann Tindastóls um bikarmálefni Stólanna en eina sem hann vildi var heimaleikur.
,,Þetta er langt í frá okkar tebolli, vonandi breytist það eitthvað,“ sagði Svavar Atli um Tindastól og bikarkeppni KKÍ sem í dag gengur undir nafninu Subwaybikarinn. ,,Það er erfitt að staðsetja hvað sé að því annars værum við með lausn á þessu. Við leggjum reyndar ekkert sérstaklega upp úr þessari keppni en vonandi verðum við heppnir núna og fáum heimaleik,“ sagði Svavar og vildi meina að Stólarnir væru í sífellu á útivelli í bikarnum.
,,Við gætum eflaust náð upp góðri stemmningu hér heima en þetta er dagsformið og ýmislegt þarf að smella til að fara alla leið,“ sagði Svavar sem nýverið fékk nýjan liðsfélaga í fyrrum leikmanni Grindavíkur, Amani Daanish.
,,Hann er vaxandi, Daanish var frekar rólegur þegar hann kom fyrst en hann er að vaxa í leik sínum og vonandi kemst það til skila inni á vellinum. Hann frákastar vel og er að spila ágætis vörn. Við höfum reyndar farið illa í kanamálum undanfarið og árið í ár er engin undantekning. Við misstum t.d. af leikmanni sem var fangelsaður,“ sagði Svavar um kanamál Tindastóls en liðið hefur farið í gegnum fjölda leikmanna síðustu ár.
,,Annars eigum við okkur enga óskamótherja í bikarnum. Við viljum bara heimaleik og ef maður ætlar áfram í bikarnum þá þarf maður á endanum að mæta alvöru liðum svo það er ekkert annað en að fara þær leiðir sem bjóðast,“ sagði Svavar og er ánægður með aðsóknina á heimaleiki Tindastóls undanfarið.
,,Það er fín stemmning í hópnum okkar og t.d. var mjög góð mæting á síðasta leik, tæplega 500 manns og ég vona bara að það fari vaxandi en það trekkir líka að fá svona háloftafugl í hópinn eins og Daanish,“ sagði Svavar sem bíður eflaust spenntur eftir því að dregið verði í bikarnum á eftir kl. 14:00.
Bikarsaga Tindastóls frá árinu 2004:
2009 ÍR – Tindastóll 69-56 (16 liða)
2008 Tindastóll – Keflavík 94-105 (16 liða)
2007 Tindastóll – KR 86-94 (16 liða)
2006 Tindastóll – Keflavík 67-89 (16 liða)
2005 Hamar – Tindastóll 96-70 (16 liða)
2004 Tindastóll – Snæfell 87-88 (8 liða)
Þau lið sem hafa orðið bikarmeistarar í karlaflokki:
Ármann
KR
ÍS
Valur
Fram
Haukar
Njarðvík
Keflavík
Grindavík
ÍR
Snæfell
Stjarnan
Eins og sést eru það aðeins 11 félög í karlaflokki sem hampað hafa bikarmeistaratitlinum og nú er spurningin bara hvort það tólfta bætist við í ár.