18:48
{mosimage}
(Svavar í leik með Tindastól gegn Stjörnunni í fyrra)
Erfiður vetur er framundan í Iceland Express deildinni hjá Tindastólsmönnum. Stólarnir sigruðu 1. deildina á síðustu leiktíð og unnu sér inn þátttökurétt í Iceland Express deildinni. Svavar Birgisson gerir sér grein fyrir því að margir spái þeim falli í deildinni en segir það svo sem þægilega stöðu fyrir sína menn að enginn eigi von á einhverju mikilfenglegu frá liðinu.
,,Við erum með þunnan hóp, það er okkar helsta vandamál, erlendu leikmennirnir spila stóra rullu í okkar liði og vægi þeirra verður mikið í vetur. Ef þeir standa sig vel ættum við alveg að geta komist inn í úrslitakeppnina,” sagði Svavar í samtali við Karfan.is.
Stólarnir verða með þrjá erlenda leikmenn í vetur, þá Lamar Karim frá Bandaríkjunum, Steve Parillon frá Jómfrúareyjum og Milojica Zekovic frá Svartfjallalandi. Fyrir hjá Stólunum eru svo leikmenn sem hafa töluverða reynslu af úrvalsdeild, Svavar, Ísak, Gunnlaugur og Helgi Rafn. ,,Lamar er sterkur leikmaður, aðeins 177 sm að hæð en treður á alla kanta,” sagði Svavar en Lamar þessi gerði hvorki fleiri né færri en 45 stig í Powerade bikarnum gegn Snæfellingum þar sem Stólarnir fóru með sigur af hólmi.
,,Við erum stórt spurningamerki, annars hef ég góða tilfinningu fyrir hópnum hjá okkur í vetur,” sagði Svavar að lokum.