Einn leikur fór fram í NBA í nótt þar sem Phoenix Suns unnu SA Spurs í öðrum leik liðanna, 110-102.
Phoenix Suns hafa unnið báða leikina í rimmunni en á meðan Steve Nash dró vagninn í fyrri leiknum, voru flestallir leikmenn Suns að skila sínu í nótt. Sex leikmenn skoruðu 11 stig eða meira, en Amare Stoudemire var fremstur í flokki með 23 stig og 11 fráköst.
Hjá Spurs var Tim Duncan með 29 stig og 10 fráköst, en Manu Ginobili var í strangri gæslu hjá Grant Hill og skoraði bara 11 stig, þó hann hafi einnig átt 11 stoðsendingar.
Liðin halda nú til San Antonio þar sem mun eflaust hitna í kolunum, enda eru bæði lið að toppa á réttum tíma og aldrei að vita hvað gerist.