Sundsvall Dragons mun leika til úrslita um sænska meistaratitilinn í körfuknattleik eftir að liðið sópaði Södertalje Kings í sumarfrí 3-0. Liðin mættust í sinni þriðju viðureign í kvöld á heimavelli Sundsvall þar sem lokatölur voru 104-79 Drekunum í vil.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Elías Bæringsson áttu skínandi leik með Sundsvall. Jakob skoraði 16 stig í leiknum, setti niður alla þrjá þristana sína og var auk þess með 6 stoðsendingar og 2 fráköst. Hlynur bætti við 15 stigum og tók 9 fráköst. Þá setti hann niður öll sex vítin sín í leiknum.
Sundsvall leikur því til úrslita og verandi deildarmeistarar mun liðið því eiga heimaleikjaréttinn í úrslitaseríunni sem verður gegn annað hvort Norrköping Dolphins eða LF Basket.