Fjörið í Dalhúsadrengjum ætlar engan endi að taka. Þessir kappar víla það ekki fyrir sér að skella sér í kvenmannsfatnað til þess eins að óska vini sínum til hamingju með að hann eigi von á stúlku. Þannig var mál með vexti á dögunum að körfuboltaparið Elvar Sigurðsson og Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir eiga von á sínu fyrsta barni þann 31. júlí næstkomandi. Barnasturta eða „Baby Shower“ var haldið af vinkonum Heiðrúnar en vinir Elvars máttu ekki minni „menn“ vera og komu vini sínum rækilega á óvart.
Við fengum Heiðrúnu Hörpu til að segja okkur eldsnöggt frá því hvernig þessi mál æxluðust:
„Strákarnir biðu eftir því að Elvar færi úr íbúðinni okkar og hann ákvað að fara í ræktina svo þeir komu fljótlega og græjuðu allt. Haukur og Elvar höfðu ákveðið að fara svo í sund eftir að Elvar væri búinn í ræktinni svo Haukur sótti hann þangað og þóttist hafa gleymt stuttbuxum svo þeir komu heim og Elvar ætlaði að lána honum stuttbuxur.
Strákarnir földu sig inni í herbergi og Elvar kom inn og fannst frekar skrýtið að ég væri búin að baka… svo komu strákarnir eða “dömurnar” og sögðu ” surpriiise ” .. hann fór alveg í kerfi haha…“ sagði Heiðrún okkur og skyldi engan undra enda myndarpiltar hér á ferð. Elvar fékk svo ekki óáreittur að sitja í sínum venjubundnu borgaraklæðum við veisluna heldur var græjaður partýgalli á hann í snarhasti.
Strákarnir leystu Elvar svo út með bangsa, kjól og Pampers blautþurrkum. Hver þarf óvini þegar maður á svona vini en að þessu sögðu þá ætti fólk að huga að því að halda eitthvað annað en „Baby Showers“ í framtíðinni, sú flottasta hefur þegar farið fram.
Mynd/ Frá vinstri: Tómas Heiðar Tómasson, Arnþór Freyr Guðmundsson, Tómas Daði Bessason, Elvar Sigurðsson verðandi faðir, Björgvin Hafþór Ríkharðsson verðandi móðurbróðir, Ægir Þór Steinarsson og Haukur Helgi Pálsson.