spot_img
HomeFréttirStúlkurnar náðu í fyrsta sigurinn í Södertalje - Lögðu heimakonur í spennuleik

Stúlkurnar náðu í fyrsta sigurinn í Södertalje – Lögðu heimakonur í spennuleik

Undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði heimastúlkur í Svíþjóð í kvöld í þriðja leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje, 70-66. Liðið hefur því unnið einn leik og tapað tveimur, en á morgun mæta þær liði Finnlands.

Fyrir leik

Fyrir leik dagsins höfðu bæði Svíþjóð og Ísland tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. Ísland gegn Eistlandi og Danmörku á meðan að Svíþjóð laut í lægra haldi gegn Finnlandi og Danmörku.

Í byrjunarliði Íslands í dag voru Kolbrún María Ármannsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir, Anna María Magnúsdóttir, Fjóla Gerður Gunnarsdóttir og Bára Björk Óladóttir.

Gangur leiks

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur nær íslenska liðið góðum tökum á leiknum fyrir lok fyrsta leikhlutans og leiða með sex stigum fyrir annan leikhluta, 17-11. Í öðrum leikhlutanum bætir Ísland við forystu sína og kemst mest 13 stigum yfir í hálfleiknum, en munurinn er 9 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-23.

Ber að merkja að íslenska liðið náði að rúlla vel á liði sínu í fyrri hálfleiknum þar sem meðal annars níu af tólf leikmönnum liðsins voru komnar á blað í stigaskorun í fyrri hálfleiknum, en stigahæst var Kolbrún María Ármannsdóttir með átta stig.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimastúlkur að koma í veg fyrir að Ísland komist lengra á undan. Íslenska liðið á mjög erfitt með að skora í þriðja leikhlutanum og nær Svíþjóð að vinna muninn í fjórðungnum, en staðan er jöfn fyrir lokaleikhlutann, 43-43. Leikurinn helst svo nokkuð jafn vel inn í fjórða leikhlutann þar sem Svíþjóð er 2 stigum á undan þegar fimm eru til leiksloka, 55-57. Á lokamínútunum fær íslenska liðið nokkur skot til að detta fyrir sig og halda heimastúlkum að mestu aftur á varnarhelmingi vallarins. Uppskera að lokum flottan fyrsta sigur á mótinu, 70-66.

Atkvæðamestar

Í frekar jöfnu liði Íslands í dag voru atkvæðamestar Anna María Magnúsdóttir með 12 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar, Kolbrún María Ármannsdóttir með 22 stig, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir með 10 stig og 2 fráköst.

Kjarninn

Líkt og fyrri leikir Íslands í þessu móti hefði þessi getað dottið með báðum liðum. Munurinn alls ekki mikill á liðunum. Ólíkt hinum leikjunum fékk íslenska liðið nokkur skot til að detta á lokakaflanum og var það líklega ástæða þess þær náðu að sigra. Sterkt fyrir þær að ná að klára þetta og tryggja sér fyrsta sigurinn á Norðurlandamóti þessa árs.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands á mótinu er á morgun föstudag gegn Finnlandi kl. 17:45 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -