Undir 16 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumótinu í Sófíu í Búlgaríu.
Í dag tapaði liðið sínum fyrsta leik í umspili um sæti 17-23 fyrir Austurríki, 56-68.
Fyrri hálfleikur í leik dagsins var jafn og spennandi. Austurríki var með tveggja stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 17-15. Þegar í hálfleik var komið var staðan svo áfram nánast jöfn, Austurríki með eins stigs forystu þá, 30-31.
Í þriðja leikhlutanum hélt leikurinn svo áfram að vera í járnum, munurinn fyrir lokaleikhlutann aðeins 2 stig Austurríki í vil, 47-49. Í fjórða leikhlutanum misstu íslensku stelpurnar þær austurrísku frammúr sér og náðu ekki að vinna muninn upp aftur. Niðurstaðan að lokum, nokkuð öruggur sigur Austurríkis, 56-68.
Atkvæðamest fyrir Ísland í dag var Lára Ásgeirsdóttir með 22 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar.
Næst leikur liðið kl. 13:00 á morgun gegn Albaníu í umspili um sæti 21-23 á mótinu.