spot_img
HomeFréttirStrákarnir enn taplausir

Strákarnir enn taplausir

 

 

Undir 18 ára lið drengja sigraði Svíþjóð með 16 stigum, 78-62. Liðið er því enn taplaust á mótinu (höfðu áður unnið Danmörk svo Noreg) og því til alls líklegt. Næst síðasti leikur liðsins er á morgun gegn Eistlandi og svo er sá síðasti gegn Finnlandi á fimmtudag.

 

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar. Ísland tók þó af skarið um miðjan leikhlutann og byggði sér upp smá forystu, 11-4. Mest komust þeir 9 stigum yfir í hlutanum, 6-15, áður en Svíþjóð náði að svara með snörpu 8-2 áhlaupi. Leikhlutinn endaði með 3 stiga forystu Íslands, 17-14.

 

Í öðrum leikhlutanum virtist ljóst að Ísland ætlaði að selja sig dýrt, báðu megin á vellinum. Spiluðu mjög ógnandi vörn og uppskáru að launum nokkra bolta og helmingi fleiri villur heldur en Svíþjóð. Ísland var með 5 stiga forystu, 26-21, um miðjan leikhlutann. Það má segja að tveir þristar um þetta leyti, sá fyrri frá Eyjólfi Ásberg og svo annar frá Ingva Guðmundssyni, hafi kveikt í íslenska liðinu. Mesti munur fyrri hálfleiksins var þegar að dómarinn flautaði til hálfleiks, en þá var Ísland með 15 stiga forystu, 41-26.

 

Atkvæðamestur í fyrri hálfleik var Ingvi Guðmundsson með 12 stig, 2 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

 

Í byrjun þriðja hluta má svo segja að Ísland hafi veitt Svíþjóð náðarhöggið með 9-0 áhlaupi. Um miðjan hlutann var staðan svo komin í 54-28 fyrir Ísland. Svíþjóð náði að setja nokkrar körfur í lok leikhlutans, en ísland hélt þó í þá forystu sem komin var. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 61-36 fyrir Ísland.

 

Í fjórða leikhluta gerði Svíþjóð sig aldrei liklega til þess að gera neina alvöru atlögu að leiknum. Þeir skáru þó aðeins á forskot Íslands í lokin, en það var aðallega eftir að handklæðinu hafði verið kastað inn. Leikurinn endaði með 16 stiga sigri Íslands, 78-62.

 

Maður leiksins var Ingvi Guðmundsson, en hann skoraði 27 stig, tók 4 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum á þeimrétt rúmu 33 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

 

 

Tölfræði

 

Myndir

 

Viðtöl:

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -