Ísland tapaði í dag sínum öðrum leik í undankeppni EuroBasket 2021 fyrir Grikklandi ytra, 89-54. Fyrr í vikunni höfðu þær tapað heima fyrir Búlgaríu. Þó að leikur Slóveníu og Búlgaríu hafi ekki farið fram, er ljóst að eftir þennan leikjaglugga verður Ísland í neðsta sæti A riðils, þó aðeins einum sigurleik frá liðunum í 2.-3. sæti.

Heimakonur í Grikklandi byrjuðu leik dagsins af krafti. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 16 stigum, 28-12. Undir lok fyrri hálfleiksins bættu þær svo bara enn í og fóru með 36 stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik, 54-18. Atkvæðamest fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Hildur Björg Kjartansdóttir með 4 stig.

Í upphafi seinni hálfleiksins náði Ísland í fyrsta skipti aðeins að halda í við heimakonur. Tapa þriðja leikhlutanum þó með 3 stigum og munurinn því 39 stig fyrir lokaleikhlutann. Í honum gerðu þær grísku svo nóg til þess að sigla að lokum nokkuð öruggum 35 stiga sigur í höfn, 89-54.

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Sylvía Rún Hálfdánardóttir með 10 stig, 8 fráköst og 2 stolna bolta á tæpum 23 mínútum spiluðum.