Íslenska landsliðið var rétt í þessu að tapa nokkuð illa í Búlgaríu gegn heimamönnum þar með 88 stigum gegn 59 íslenskum stigum. Búlgarir byggðu upp 20 stiga forskot strax í fyrri hálfleik og afleitur kafli okkar manna í þriðja leikhluta varð okkur endanlega að falli og Búlgarir héldu dampi í þeim fjórða og kláruðu dæmið nokkuð örugglega
Sem fyrr segir voru það Búlgarir sem hófu leik strax mjög sterkt og voru fljótlega komnir í forystuna. Þeir nýttu sér vel sína styrkleika og þjösnuðust á okkar mönnum niðri á blokkinni. Ofaní það þá voru okkar menn á hælunum í vörninni og jafnvel stærri menn þeirra Búlgara voru að “pump fake-a” okkar menn í loftið og keyra svo að körfunni nokkuð auðveldlega. Í þriðja leikhluta skoruðu okkar menn aðeins 12 stig og það má segja þar hafi íslenska liðið verið sigrað.
Í fjórða leikhluta þá rúlluðu liðin svona nokkurnvegin sinn bolta og okkar menn virtust aldrei vera á þeim buxunum að komast inní þennan leik og eygja séns á sigri. En þegar öllu er á botninn hvolft þá voru Búlgarir að spila vel og agað á meðan okkar piltar áttu slakan dag og voru líka að hitta illa, t.a.m var vítanýtingin aðeins 54% (Þó svo að aðeins væru tekin 11 víti) Piltarnir virtust vera gríðarlega þreyttir þegar á leið leikinn og setur undirritaður spurningarmerki við það hví landsliðsþjálfarinn prufi þá ekki að að nýta sér fleiri leikmenn sér í lagi þegar okkar stóru “kanónur” eru ekki að eiga góðan dag.
Stigahæstur okkar manna að þessu sinni var Jakob Sigurðarson með 19 stig og honum næstur var Jón Arnór með 13 stig. Liðið allt gaf í heild sinni 11 stoðsendingar í leiknum.