spot_img
HomeFréttirStórsigur í DHL-höllinni og KR áfram í Maltbikarnum

Stórsigur í DHL-höllinni og KR áfram í Maltbikarnum

Bikararmeistarar KR tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Maltbikarsins þegar þeir lögðu af velli nágranna sína úr Grafarvogi í DHL-höllinni í kvöld. Sigur KR var í raun aldrei í hættu og leiddu þeir með 18 stigum í hálfleik, 58-40. Fjölnisliðið barðist vel í fyrri hálfleik en eftir erfiðan þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði ekki nema 15 stig á móti 33 stigum KR, virtist allur vindur úr þeim og leiknum lauk með 50 stiga sigri heimamanna, 115-65.

Viðsnúningurinn
?KR virtist hafa sigurinn í hendi sér strax frá byrjun leiks þó svo að Fjölnir hafi hangið í þeim framan af í fyrri hálfleik. Brynjar Þór Björnsson var Fjölni mjög erfiður í fyrsta leikhluta og geigaði varla á skoti. 6 þristar úr jafnmörgum skotum fyrir utan þriggja stiga línuna og hann kominn með 18 stig eftir leikhlutann. Um miðjan þriðja leikhluta lét þjálfari KR, Finnur Freyr Stefánsson, dómarana heyra það og uppskar að launum tvær tæknivillur. Þátttöku hans í leiknum því lokið. Collin Pryor setti niður tvö víti í kjölfarið og Egill Egilsson smellti niður þristi fyrir Fjölni og minnkaði við það stöðuna í 18 stig, 69-51. Fjölnir náði þó ekki að fylgja þessu eftir, þeim gekk illa að skora það sem eftir var af þriðja leikhluta og KR lék við hvern sinn fingur. Staðan fyrir lokafjórðunginn 91-55 og eftirleikurinn auðveldur fyrir KR.

Hetjan
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var hetja KR í kvöld í leik þar sem allir leikmenn liðsins komust á blað. Hann skoraði 28 stig og gaf 6 stoðsendingar og var vel fagnað af stuðningsmönnum KR þegar honum var skipt útaf undir lok fjórða leikhluta.
 

Kjarninn
KR vann skyldusigur á 1. deildarliði Fjölnis og er þar með búið að tryggja sig áfram í Maltbikarnum. Leikurinn var nokkuð hraður og bauð upp á fín tilþrif en getumunurinn á liðunum einfaldlega það mikill að sigur KR var aldrei í hættu. 

Myndasafn úr leik

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -