Fjölnir sigraði ÍA örugglega þegar liðin áttust við í 17. umferð 1. deildar karla í Dalhúsum. Fjölnismenn mættu tilbúnir til leiks í kvöld og héldu ÍA í 10 stigum í fyrsta leikhluta. Skagamönnum gekk illa stöðva Samuel Prescott Jr. og Sigvalda Eggertsson en þeir tveir skoruðu öll 23 stig Fjölnis í fyrsta fjórðungnum.
Fjölnir hélt áfram að auka forskot sitt í 2. leikhluta, þeir héldu Skagamönnum í 10 stigum annan fjórðunginn í röð og leiddu í hálfleik með 31 stigi, 51-20. ÍA sá ekki til sólar í seinni hálfleik og fór svo að heimamenn sigruðu leikinn með 56 stigum, 107-51.
Falur Harðarsson dreifði mínútunum vel á milli leikmanna sinna en stigahæstur Fjölnismanna var Samuel Prescott Jr. sem skoraði 35 stig og tók 8 fráköst á rúmum 25 mínútum. Sigvaldi Eggertsson skoraði 21 stig og tók 5 fráköst og nýr leikmaður Fjölnis, Andrés Kristleifsson skoraði 12 stig.
Hjá ÍA var Jón Orri Kristjánsson atkvæðamestur með 14 stig og 7 fráköst, Sigurður Rúnar Sigurðsson skoraði 15 stig og Sindri Leví Ingason skoraði 9 stig og tók 5 fráköst.
Skagamenn leita enn að sínum fyrsta sigri í deildinni í vetur en Fjölnir situr í 6. sæti, einungis tveimur stigum frá 5. sætinu og sæti í úrslitakeppninni. Á fimmtudaginn heldur Fjölnir í Borgarnes þar sem þeir mæta toppliði Skallagríms en ÍA tekur á móti Hamri á föstudaginn.
Fjölnir: Samuel Prescott Jr. 25/8 fráköst, Sigvaldi Eggertsson 21/5 fráköst, Andrés Kristleifsson 12, Jón Rúnar Baldvinsson 9, Ívar Barja 7, Sigmar Jóhann Bjarnason 6/8 fráköst, Rafn Kristján Kristjánsson 6, Davíð Alexander H. Magnússon 4/5 stoðsendingar, Brynjar Birgisson 4, Daníel Freyr Friðriksson 3, Alexander Þór Hafþórsson 0/7 stoðsendingar, Daníel Bjarki Stefánsson 0.
ÍA: Sigurður Rúnar Sigurðsson 15, Jón Orri Kristjánsson 14/7 fráköst, Sindri Leví Ingason 9/5 fráköst, Axel Fannar Elvarsson 4, Jón Frímannsson 2, Jón K. Traustason 2, Kacper Zareba 2, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Stefán Kaprasíus Garðarsson 0, Gabríel Rafn Guðnason 0, Sigursteinn Orri Hálfdánarson 0, Pálmi Snær Hlynsson 0.