Undir 16 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumótinu í Podogorica í Svartfjallalandi.
Í dag töpuðu þeir með einu stigi, 83-84, fyrir Bretlandi í umspili um sæti 9-16.
Ísland fór heldur ill af stað í leik dagsins. Voru 4 stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 17-21. Undir lok fyrri hálfleiksins varð sú hola þeirra aðeins dýpri, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var forysta Bretlands 10 stig, 32-42.
Í upphafi seinni hálfleiksins leit það svo ekki út fyrir að Ísland myndi vinna niður muninn, 11 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 55-66. Í honum gerðu þeir þó vel í að koma sér aftur inn í leikinn. Með góðum kafla á síðustu mínútunum náðu þeir þó að jafna leikinn. Með þriggja stiga körfu frá Orra Gunnarssyni komust þeir svo yfir, 83-82 þegar aðeins 30 sekúndur voru eftir. Bretland fór þá í sókn og skoraði, 83-84. Á lokasekúndunum fékk Ísland svo tækifæri til þess að vinna leikinn, en allt kom fyrir ekki. Bretland vann leikinn með þessu eina stigi, 83-84.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í dag var Orri Gunnarsson með 32 stig, 11 fráköst og 4 stolna bolta.
Næst leikur liðið gegn Ungverjalandi kl. 14:00 á morgun í umspili um sæti 13-16 á mótinu.