spot_img
HomeFréttirStórleikur Hlyns dugði ekki til gegn KR

Stórleikur Hlyns dugði ekki til gegn KR

01:39 

{mosimage}

(Hlynur og Fannar börðust af krafti í DHL-höllinni) 

Spennan var enn og aftur í algleymingi í Iceland Express deild karla í kvöld en þessi fyrsta umferð hefur ekki svikið nokkurn körfuknattleiksáhugamann. Hver spennuleikurinn á fætur öðrum þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en í blálokin. Í kvöld var það spennuþrungið andrúmsloft sem sveif um sali DHL-hallarinnar í Vesturbænum þegar KR-ingar höfðu fjögurra stiga sigur á Snæfellingum í bráðskemmtilegum leik. Lokatölur voru 83-79 KR í vil en Justin Shouse átti möguleika á því að jafna leikinn þegar 7 sekúndur voru til leiksloka en víkjum síðar að því. 

Heimamenn komust í 4-0 og virkuðu grimmari í upphafi leiks. Gestirnir úr Stykkishólmi voru satt best að segja vandræðalegir í sóknaraðgerðum sínum og brenndu af hverju sniðskotinu á fætur öðru. Skarphéðinn Ingason kom KR í 9-2 með þriggja stiga körfu en fékk fljótlega sína aðra villu svo Benedikt ákvað að kalla hann á bekkinn. KR-ingar komust í 15-6 en loks kom að því að tuðran vildi ofan í hjá Snæfellingum og lauk leikhlutanum í stöðunni 20-14 fyrir KR. 

Darri Hilmarsson opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 23-14 en Snæfellingar svöruðu um hæl með annarri þriggja stiga körfu, 23-17. Heimamenn voru þó sterkari og náðu enn á ný að vinna upp ágæta forystu og héldu liðin til hálfleiks í stöðunni 41-33 fyrir KR. Jón Ó. Jónsson fékk sína þriðju villu í öðrum leikhluta og þá var Jeremiah Sola einnig kominn með þrjár villur í liði KR en Sola var sterkur í kringum körfuna og reyndist Snæfellingum erfiður.  

{mosimage}

Annar sem fór hamförum við körfuna var Hlynur nokkur Bæringsson, kauði tók 12 fráköst í fyrri hálfleik og á köflum virtist sem tvö eintök af honum væru á vellinum. 

Í þriðja leikhluta voru KR-ingar enn með undirtökin og leiddu allan leikhlutann. Gestirnir voru þó aldrei langt undan og sá Jón Ólafur að mestu leyti um að kveikja upp í þeim rauðu þegar mest á þurfti. Jón fékk sína fjórðu villu í leikhlutanum og varð því að fara varlega eftir það. Snæfellingar minnkuðu muninn í 59-54 undir lok leikhlutans en Brynjar Björnsson setti niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 62-54 fyrir KR en það reyndist vera síðasta karfa leikhlutans. Snæfellingar voru ekki alveg með á nótunum eftir körfu Brynjars en Magni Hafsteinsson átti möguleika á því að taka síðasta skot leikhlutans en klukkan rann út áður en hann náði að skjóta. 

{mosimage}

Hlynur Bæringsson, sem var besti maður vallarins í kvöld, gerði fyrstu stig fjórða leikhluta og staðan því 62-58 fyrir KR. Fram að loka leikhlutanum höfðu Snæfellingar hangið í pilsfaldi KR allan leikinn en það breyttist þegar Hlynur Bæringsson fór á þriggja stiga þeysing um víðan völl. Hlynur jafnaði metin í 72-72 þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka við mikinn fögnuð Hólmara sem fjölmenntu í DHL-höllina. Skömmu síðar fékk Hlynur sína fjórðu villu. Eftir fyrstu þriggja stiga körfuna komu tvær til viðbótar frá Hlyn og staðan orðin 74-78 fyrir Snæfellinga en Brynjar Björnsson minnkaði muninn í 77-78 með góðum þrist. 

 

Jón Ólafur, sem átti góðan leik fyrir Snæfell, fékk sína fimmtu villu þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka og varð því frá að víkja. Skömmu síðar fékk Hlynur sína fimmtu villu og KR-ingar breyttu stöðunni í 80-79. Næsta karfa féll einnig KR í skaut og staðan því 82-79. Þegar 7 sekúndur voru til leiksloka freistaði Justin Shouse þess að jafna leikinn með þriggja stiga skoti en Jeremiah Sola braut á honum svo Shouse hélt á vítalínuna og gat jafnað leikinn með því að skora úr öllum vítunum. Óhætt er að segja að Shouse hafi farið á taugum en hann brenndi af öllum vítunum og tvö stig því komin í höfn hjá KR-ingum sem fögnuðu sigrinum vel. 

{mosimage}

Eins og áður segir var Hlynur Bæringsson maður leiksins en hann gerði 22 stig og tók 19 fráköst í leiknum. Snæfellingar höfðu algera yfirburði í fráköstunum en skotnýting liðsins í leiknum var hræðileg. Sem dæmi má nefna hitti liðið aðeins úr 14 af 23 vítum sínum í leiknum en það er ekki vænlegt til árangurs. 

Hjá KR var Jeremiah Sola atkvæðamestur með 24 stig, 5, stoðsendingar, 4 fráköst og 3 varin skot.  

Gangur leiksins

6-2, 15-6, 20-14

23-17, 34-22, 41-33

51-42, 59-50, 62-56

68-63, 74-78, 83-79. 

Tölfræði leiksins 

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -