Fyrirfram mátti heldur betur búast við áhugaverðri rimmu í Vesturbænum í kvöld. Komið var að 9. umferð Bónusdeildarinnar og Vesturbæjarstórveldið fékk Reykjavíkurstórveldið, ÍR, í heimsókn. Bæði stórveldin eru reyndar nýliðar í deildinni svo segja má að um nýliðastórveldaslag hafi verið að ræða!
ÍR-ingar fóru afleitlega af stað á tímabilinu en hafa unnið síðustu tvo leiki sína. Er nýtt Breiðholtsævintýri í uppsiglingu? KR-ingar hafa safnað helmingi fleiri stigum en gestir kvöldsins en hafa hins vegar ekki náð að tengja saman svo sigurleiki. Taktfræðilega séð ættu því KR-ingar að tapa og ÍR-ingar að halda áfram að vinna, eða hvað, Kúla?
Kúlan: ,,Algerlega! Yfirleitt eru þessir inngangar þínir þvæla og bull en ÍR vinnur í kvöld. KR getur ekki unnið tvo í röð og Borche, minn maður, hann er með þetta! Lokatölur verða 85-89.“
Byrjunarlið
KR: Linards, Granic, Þorri, Tóti, Nimrod
ÍR: Jukic, Kavas, Tómas Orri, Hákon, Falko
Gangur leiksins
Það var iðandi líf á fullum pöllunum í Vesturbænum og sömuleiðis inn á vellinum. Jafnt var á öllum tölum, staðan 12-12 eftir 5 mínútur. ÍR-ingar leiddu 17-18 þegar góðar 3 lifðu af fyrsta leikhluta en þeir tóku þá upp á því að eiga sannkallaðan klaufabárðakafla! Gestirnir létu dæma á sig tvígrip, töpuðu boltum klaufalega og alls konar rugl í gangi. Heimamenn nýttu sér þetta nokkuð sæmilega og leiddu 26-20 eftir einn.
Illa gekk hjá gestunum að ná stoppum á varnarhelmingi því allir voru að skila stigum fyrir KR-inga. Einnig voru heimamenn að hirða fullmikið af sóknarfráköstum svona frá sjónarhorni Borche og ÍR-inga. Segja má að Matej Kavas hafi haldið sínum mönnum inn í leiknum með þriggja stiga skotsýningu en að öðru leyti var ekki mikið að frétta sóknarlega hjá ÍR. 10 stiga múrinn frægi reis að lokum seint í leikhlutanum í stöðunni 50-39 en Breiðhyltingum tókst að laga stöðuna aðeins fyrir hlé, staðan 52-45 í pásunni.
Kavas hélt uppteknum hætti eftir hálfleikinn fyrir utan línuna og í raun að öllu leyti svipaður gangur í leiknum og hafði verið í öðrum leikhluta. KR-ingar gerðu við múrinn og Borche blés til leikhlés þegar rúmar 3 voru liðnar af þriðja í stöðunni 64-54. Borche hitti á töfraorðin því við tók 1-10 kafli ÍR-inga og allt í járnum, 65-64! Vesturbæjarstórveldið átti hins vegar næstu högg í bardaganum og héldu naumu forskoti, 75-71, fyrir lokafjórðunginn.
Þvílíkur lokaleikhluti sem áhorfendur fengu í kvöld! Það er vinnuregla hjá Kavas að hefja fjórðunga á þristi og hann setti sinn 7. í jafn mörgum skotum! Gestirnir komust svo yfir í framhaldinu en heimamenn svöruðu að bragði og leiddu 86-80 þegar fjórar mínútur voru eftir. Kavas, hver annar, henti þá enn einum niður og svo var komið að þætti Borgnesingsins snjalla, Björgvins Hafþórs! Á manninn rann æði, skoraði ítrekað, þar á meðal einn þrist. Jafnt var á öllum tölum, Tóti Túrbó ásamt þéttum heimamönnum héldu í við Bjögga. Þegar nákvæmlega skotklukka var eftir af leiknum kom Bjöggi Reykjavíkurstórveldinu yfir 93-95 eftir sóknarfrákast í háloftunum. Nimrod fiskaði villu þegar 12 sekúndur voru eftir og svissaði báðum á línunni! 95-95. Eftir kannski ekki svo mjög fagra lokasókn ÍR-inga djöflaði Hákon fyrirliði sér að körfunni og fékk villuna! Hann var enginn eftirbátur Nimrod, setti bæði og aðeins 5 sekúndur eftir. KR-ingar áttu ekki leikhlé, þeir komu ekki skoti upp og svaðalegur 95-97 sigur Breiðhyltinga orðinn að veruleika.
Menn leiksins
Matej Kavas var algerlega frábær í kvöld! Hann skoraði 32 stig, setti 8 tandurhreina þrista í 10 skotum og tók 9 fráköst! Falko gerði mikið af ýmsu, setti 20 stig, tók 5 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Björgvin átti svo geggjaðan fjórða leikhluta, endaði með 11 stig, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á 14 mínútum!
Spilamennska KR-inga var ljómandi fín þrátt fyrir tap. Erfitt er að taka einn út úr þeirra hópi því allir í byrjunarliðinu settu 11+ stig og allir fráköstuðu vel og gáfu stoðsendingar. Linards var stigahæstur með 21, Tóti með 14 stig, tók 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Kjarninn
Þvílíkur leikur fyrir fólkið í kvöld! Bæði lið spiluðu mjög vel í þessum leik og ekki má gleyma áhorfendum sem voru sannarlega vel með á nótunum. Það er alveg yndislegt að sjá Gettó-ana aftur mætta sterka til leiks og fjölmennir KR-ingar gáfu þeim ekkert eftir.
ÍR-ingar hafa nú tekið þrjá í röð, þeir eru vaknaðir! KR-ingar eru væntanlega súrir yfir þessum úrslitum í kvöld, en liðið spilaði samt sem áður vel – bara áfram gakk!
Myndasafn (Bára Dröfn)