spot_img
HomeFréttirStólasigur í sveiflukenndum leik

Stólasigur í sveiflukenndum leik

 

Tindastóll sigraði Keflavík með 4 stigum, 82-86, í 19. umferð Domino´s deildar karla fyrr í kvöld. Tindastóll færist með sigrinum upp um sæti í töflunni, úr því 7. í það 6. á meðan að Keflavík stendur í stað í 2. sætinu.

 

 

Tindastóll vann einnig fyrri leik þessara liða í deildinni og vinna leiktíðarrimmu liðanna með tveimur sigrum gegn engum. En í þessum fyrri leik lék erlendur leikmaður Keflavíkur, Jerome Hill, einmitt með Tindastól. 

 

Einhverjar breytingar voru á því liði sem byrjaði inná hjá Keflavík. Hvort sem þarna var verið að hrista upp í hlutunum eftir tapið stóra fyrir KR eða hvað. Þá byrjuðu þeir með Magnús Þór Gunnarsson og Andrés Kristleifsson inná og héldu þar með Guðmundi Jónssyni og Reggie Dupree frá byrjunarliðinu.

 

Í fyrsta leikhluta þessa leiks virtist hann ætla að verða fjörugur. Keflavík fór eilítið betur af stað. Svæðisvörn þeirra í byrjun leiks virtist vera að ganga upp. Leikmenn Tindastóls náðu allavegana ekki að setja niður þau opnu skot sem að þeir fengu. Allt þangað til í lok leikhlutans, en þá tóku gestirnir aðeins frammúr Keflavík. Leikhlutinn endaði með 7 stiga forystu Tindastóls.

 

Annar leikhluti leiksins var svo algjörlega eign Tindastóls. Þeir voru snöggir að bæta við forystu sína og Keflavík virtist hreinlega ekki eiga nein svör, hvort sem það var í sókninni sinni eða varnarmegin. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Tindastóll kominn með 24 stiga forystu, 32-56.

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik var Jerome Hill með 6 stig og 5 fráköst á meðan að fyrir gestina var það hinn síungi Darrell Lewis sem dróg vagninn með 10 stig og 6 fráköst.

 

Það var svo ekki fyrr en að 3. leikhlutinn var um það bil hálfnaður sem að það komst af stað eitthvað áhlaup hjá heimamönnum. Voru enn 23 stigum undir þegar að leikhlutinn var hálfnaður. Fljótlega upp úr því ná þeir samt svo að vinna muninn aðeins niður. Mikið til vegna þess að skot þeirra fóru að detta niður. Loka leikhlutanum “aðeins” 15 stigum undir. 

 

Keflavík náði svo ekki almennilega að teygja þetta áhlaup yfir í næsta leikhluta. Það var í raun ekki fyrr en tæpar 6 mínútur voru eftir sem að þeir fóru af stað aftur. Þ.e. skotin þeirra fóru aftur að detta, sem og náðu þeir nokkrum góðum stoppum varnarlega. Leikmenn Tindastóls náðu hinsvegar að standa þetta af sér. 3 stig var sá minnsti munur sem var á liðunum þessar lokamínútur. Leikurinn endaði með 4 stiga sigri gestanna, 82-86.

 

Mature leiksins var leikmaður Tindastóls, Myron Dempsey, en hann skoraði 19 stig og tók 13 fráköst á þeim rétt tæpu 30 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði

 

Myndir

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / SBS 

Fréttir
- Auglýsing -