Sæti í úrslitakeppninni var í húfi í kvöld þegar ÍR skondruðust norður á Krókinn og léku gegn Tindastóli. Bæði lið með 14 stig fyrir leikinn sem var í næst síðustu umferð IE deildar karla. Leikurinn var í járnum mest allan tímann og mikil spenna í lokin.
Fyrir heimamenn byrjuðu Friðrik, Svavar, Cedric, Helgi Rafn og Donatas. Hinu megin voru það Steinar, Nemanja, Kristinn, Eiríkur og hetjan úr síðasta leik ÍR, Robert Jarvis sem hófu leik. Liðin skiptust á að hafa forystu allan fyrsta leikhlutann, en þegar hann var nákvæmlega hálfnaður var staðan reyndar jöfn 9 – 9. Stólarnir leiddu svo með einu stigi að loknum fyrsta fjórðungi, 20 – 19. Steinar Arason byrjaði vel fyrir gestina og var kominn með 9 stig. Tindastólsmegin voru það Cedric og Helgi Rafn sem voru atkvæðamestir, Cedric með 9 stig og Helgi 6.
Í öðrum leikhluta höfðu heimamenn forystu lengstum þó aldrei yrði hún mikil. Mest varð hún 6 stig í stöðunni 35 – 29. En síðan minnkaði ÍR muninn jafnt og þétt og fór Nemanja Sovic mikinn í síðari hluta leikhlutans. Skoraði hann tvo þrista og 10 stig að auki í leikhlutanum og var það fyrst og fremst fyrir hans framlag að ÍR náði forystunni í stöðunni 40 – 42. Þá voru rúmar tvær mínútur eftir og þær nýttu Stólarnir vel því þeir skoruðu 9 – 4 þessar síðustu mínútur og leiddu því í hálfleik 49 – 46. Eins og áður segir hitnaði Nemanja Sovic heldur í öðrum leikhlutanum og var kominn með 22 stig í hálfleik. Hjá heimamönnum var Cedric enn stigahæstur og kominn með 20 punkta. Allt útlit var fyrir spennandi síðari hálfleik.
Eftir pásuna komu ÍRingar ákveðnir til leiks og náðu strax forystu sem þeir juku jafnt og þétt. Þeir voru að leika góða vörn á þessum kafla og sóknirnar gengu þokkalega. Þegar tvær mínútur lifðu af þriðja leikhluta var munurinn orðinn 10 stig, ÍR í vil í stöðunni 58 – 68. Þá sögðu Stólarnir hingað og ekki lengra og skoruðu 12 stig án svars frá gestunum og leiddu því enn eftir þrjá leikhluta. Staðan 70 – 68.
Friðrik Hreinsson skoraði fimm fyrstu stig Tindastól í upphafi fjórða fjórðungs, en síðan kom ÍR til baka og náði að jafna, 77 – 77. Friðrik svaraði með öðrum fimm stigum og Helgi Rafn setti niður tvö víti og Stólarnir komnir aftur með þægilegt forskot. Staðan 84 – 77 og leikhlutinn hálfnaður. ÍR var ekki á því að gefast upp og hélt áfram að stríða Stólunum. Nemanja minnkaði muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu og Kristinn kom svo ÍR yfir 89 – 90 í næstu sókn. Þarna var ein og hálf mínúta eftir og mikil spenna í Síkinu.
Donatas fékk svo tvö víti fyrir Tindastól og hafði aðeins hitt úr þremur af sjö á þessum tímapunkti. Hann nýtti annað og jafnaði þar með leikinn. Nemanja klikkaði á þristi í næstu sókn ÍR og Helgi Rafn setti niður tvö stig þegar 35 sekúndur voru eftir. Enn klikkaði skot hjá ÍR og Stólarnir fóru í sókn þar sem Steinar braut á Cedric. 13 sekúndur eftir og Gunnar tók leikhlé fyrir ÍR, en Cedric fór á línuna að því loknu. Hann skoraði úr báðum vítunum og kom muninum upp í 4 stig. ÍR fór í sókn og Jarvis reyndi að endurtaka leikinn frá því fyrir þremur dögum, en það gekk ekki og Stólarnir lönduðu sigri 94 – 90. Tindastóll komið með 16 stig og sæti í úrslitakeppninni í seilingarfjarlægð.
Sprækastur Tindastólsmanna var Cedric Isom með 29 stig og Helgi Rafn skilaði 20 stigum. Þá var Friðrik góður í fjórða leikhlutanum þar sem hann skoraði 10 stig og alls 15. Aðrir skiluðu sínu, en helst er hægt að setja út á vítanýtinguna hjá Tindastóli sem var aðeins 63%. Hjá gestunum var Nemanja Sovic lang atkvæðamestur með 33 stig. Næstir honum komu Steinar Arason með 16 og Kristinn Jónasson með 13. Robert Jarvis var með 11 stig, en þriggja stiga skotnýtingin var heldur slöpp hjá honum í kvöld, aðeins 2 af fimmtán fóru niður.
Helstu tölur:
Tindastóll stig: Cedric 29, Helgi Rafn 20, Rikki 15, Donatas 14, Svavar 11, Axel 4 og Sigmar 1.
Fráköst: Helgi Rafn 9 og Donatas og Axel 7 hvor. Stoðsendingar: Cedric 9 og 5 stolnir boltar.
Fráköst: Helgi Rafn 9 og Donatas og Axel 7 hvor. Stoðsendingar: Cedric 9 og 5 stolnir boltar.
ÍR stig: Nemanja 33, Steinar 16, Kristinn 13, Robert 11, Hreggviður 10, Eiríkur 7
Fráköst: Kristinn 11, Nemanja 8. Stoðsendingar: Robert 6.
Dómarar voru þeir Einar Þór Skarphéðinsson og Davíð Hreiðarsson og skiluðu sína ágætlega.
Áhorfendur um 340.
En hvað hafði Karl Tindastólsþjálfari að segja eftir leik:
"Þetta var erfiður leikur og við vorum ekki að spila nægilega góða vörn. En við náðum inn á milli ágætum varnartilburðum sem leiddu til nokkurra auðveldra karfa og við náðum því þarna undir lokin. Held að menn hafi verið eitthvað yfirspenntir og ég fann það sjálfur að ég var hálf asnalegur eitthvað. En núna er hörkuleikur á fimmtudaginn, við settum okkur það markmið fyrir Snæfellsleikinn að taka alla leikina sem eftir væru og því höfum við verk að vinna á fimmtudaginn".
Texti: Jóhann Sigmarsson.