11:53
{mosimage}
Tindastóll innbyrti annan sigurinn í röð í deildinni í kvöld gegn Haukum frá
Hafnarfirði, en leikið var á Sauðárkróki. Byrjunarlið Tindastóls var Lamar,
Gulli, Svabbi, Ísak og Zeko, nokkuð hefðbundið byrjunarlið. Hjá Haukum
byrjuðu Sigurður, Roni, Wayne Arnold, Kristinn og Sævar. Stólarnir skoruðu
fyrstu körfu kvöldsins og var þar Gunnlaugur Elsuson á ferðinni með þrist.
Síðan komu 10 stig í röð frá Haukum og Kristinn þjálfari Tindastóls tók
leikhlé til að bremsa þá af. Það tókst því staðan breyttist úr 3-10 í 17-13.
{mosimage}Haukarnir minnkuðu muninn fyrir 2. fjórðung og staðan var 19-18 eftir fyrsta
leikhluta. Haukarnir voru að hitta vel úr þriggja stiga skotum og settu
fjögur slík niður í leikhlutanum.
Stólarnir voru síðan ávallt á undan í öðrum leikhluta, en Haukarnir voru
sjaldan langt á eftir. Þeir bættu við þremur 3ja stiga körfum í öðrum
leikhluta, en það voru aðallega Roni Leimu og Wayne Arnolds sem drógu
vagninn fyrir þá í stigaskorinu í hálfleiknum. Zekovics átti hinsvegar
prýðilegan hálfleik fyrir Stólana og skoraði öll sín 13 stig í honum. Nýji
leikmaðurinn Vujcic vaknaði svo í lok hálfleiksins í sókninni og setti
nokkrar körfur. Staðan í hálfleik var 46-41 og heimamenn nokkuð sáttir með
stöðuna.
{mosimage}
Stólarnir héldu áfram sem frá var horfið í upphafi síðari hálfleiks og komu
muninum í 11 stig um miðjan þriðja leikhluta, 62-51. Þá fór allt í
handaskolur í sókninni hjá Stólunum og Haukarnir komust yfir 62-63. Lamar
átti svo síðustu körfuna í leikhlutanum og náði forystunni aftur fyrir
Tindastól, 64-63.
Baráttan hélt áfram í lokafjórðungnum og glæsilegur sóknarleikur sást ekki
mikið. Í staðinn voru það mistök og góður varnarleikur sem einkenndu síðasta
leikhlutann. Stólarnir leiddu ávallt með 1-2 stigum. Þegar tæp mínúta var
til leiksloka var staðan 74-73. Þá fékk Ísak Einarsson opið þriggjastigaskot
í horninu og setti það niður við fögnuð alltof fárra áhorfenda. Munurinn
orðinn 4 stig og Haukar fóru í sókn, en misstu boltann. Haukarnir reyndu að
brjóta strax, en þurftu að brjóta fjórum sinnum af sér vegna mikillar
prúðmennsku í leikhlutanum, áður en þeir náðu Stólunum á vítalínuna. Svavar
Birgisson klikkaði á tveimur vítum og Haukarnir eygðu smá von, en þeir náðu
ekki að nýta sóknina í kjölfarið og Lamar náði boltanum og það var brotið á
honum og hann tryggði sigurinn með tveimur vítum. Roni Leimu skoraði svo
síðustu körfu leiksins, en sigurinn var Stólanna og þeir komnir með 8 stig í
deildinni.
{mosimage}
Eins og áður segir var körfuboltinn í kvöld ekki áferðafallegur mikinn hluta
leiksins. Það var greinilegt að leikurinn bar merki botnbaráttu. Bestu menn
Tindastóls voru Ísak og Vujcic, en síðan áttu Zekovic og Lamar ágætis
spretti. Wayne Arnolds og Roni Leimu voru hinsvegar bestir hjá Haukum og Kristinn átti þokkanlega leik.
Stigaskor Tindastóls: Lamar 19, Ísak 17, Vujcic 15, Zeko 13, Svavar 9, Gulli
og Ingvi 3 stig hvor. Arnolds var með 28 stig fyrir Hauka og Leimu með 20.
Texti: Jóhann Sigmarsson
Myndir: Jóel Þór Árnason
{mosimage}
{mosimage}