Stólarnir lögðu Grindavík í spennuleik í HS Orku höllinni

Tindastóll hafði betur gegn Grindavík í HS Orku höllinni í kvöld eftir framlengdan leik í þriðju umferð Subway deildar karla, 96-106.

Lengst af var leikurinn nokkuð jafn þó að heimamenn hafi haft forystuna nánast allan venjulegan leiktímann. Eftir fyrri hálfleikinn var staðan 47-43 fyrir Grindavík og fyrir lokaleikhlutann voru þeir fimm stigum yfir 68-63. Íslandsmeistararnir ná þó að loka gatinu á lokasekúndum venjulegs leiktíma, 93-93 og þarf því að framlengja. Í framlengingunni ráða gestirnir úr Skagafirði þó lögum og lofum á vellinum og eiga heimamenn lítinn kost á að komast inn í leikinn. Niðurstaðan að lokum 10 stiga öruggur sigur Tindastóls í spennuleik í HS Orku höllinni.

Atkvæðamestur fyrir heimamenn var Ólafur Ólafsson með 24 stig og 8 fráköst. Honum næstur var Dedrick Basile með 20 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar.

Fyrir gestina úr Skagafirði var Sigtryggur Arnar Björnsson atkvæðamestur með 32 stig, 4 fráköst og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson bætti við 16 stigum, 9 fráköstum og 16 stoðsendingum.

Grindavík á leik næst komandi fimmtudag 25. október heima í HS Orku höllinni gegn Breiðablik, en Tindastóll leikur degi seinna heima í síkinu gegn Val.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Hér fyrir neðan má sjá viðtöl sem birtast í YouTube síðu vefmiðils Víkurfrétta, vf.is.