Tindastóll tók á móti Njarðvík í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Tindastóll vann fyrri leik liðanna í sannkölluðum naglbít í Njarðvík en voru 2 stigum á eftir í deildinni fyrir leik kvöldsins
Leikurinn byrjaði á því að liðin skiptust á höggum en Stólastúlkur enduðu fyrsta leikhlutann gríðarlega sterkt, með 11-1 kafla og leiddu að honum loknum 25-16 eftir flautuþrist frá Randi Brown. Stólar komu sterkar inn í annan leikhluta og þrátt fyrir fjölmörg sóknarfráköst gestanna þá náðu heimakonur að halda forskotinu að mestu fram í miðjan leikhlutann. 5 stig í röð hjá Dinkins komu muninum niður í 3 stig 32-29 en Stólar rykktu aftur en Sara Björk svaraði þá með 6 stigum í röð fyrir Njarðvík og munurinn 2 stig 37-35. Klara lokaði svo fyrri hálfleik með frábærum þrist úr horninu, staðan 40-35 í hálfleik.
Þriðji leikhluti þróaðist á svipaðan veg og annar leikhlutinn hafði gert, Njarðvík var ekki að hitta vel en þær fengu yfirleitt allavega 2 sénsa í hverri sókn og nálguðust því hægt og bítandi. Israel Martin virtist alveg hafa gleymt að segja sínum konum að stíga út því Njarðvík náðu hverju sóknarfrákastinu á eftir öðru. Staðan orðin 55-54 eftir þriðja leikhluta. Í lokaleikhlutanum komu Stólastúlkur sterkar inn og settu fyrstu 7 stigin á töfluna og þann mun náðu Njarðvíkurkonur aldrei að brúa. Þær náðu muninum þó niður í 3 stig þegar rúm mínúta var eftir með fáséðum þrist frá Hesseldal en Randi svaraði með frábæru and1 play hinumegin og gerði útum leikinn.
Lokatölur urðu 76-69 fyrir heimakonum. Njarðvík var yfir í flestum tölfræðiþáttum og tóku 25 sóknarfráköst en hittni þeirra var afleit. Hjá Tindastól endaði Randi stigahæst með 29 stig en hjá gestunum átti Emilie Hesseldal stórleik með 10 stig og 18 fráköst.
Umfjöllun / Hjalti Árna