Sunnudagskvöldið 18. desember mættust Þór Þorlákshöfn og Tindastóll í Drekabælinu í Þorlákshöfn og var fyrirfram búist við ójöfnum leik þar sem að Stólarnir hafa ekki verið að sýna mikla takta í vetur, á meðan Þórsarar eru búnir að standa í öllum stærstu liðum deildarinnar, og sigra meðal annars topplið Grindavíkur á útivelli.
Í byrjun leiks virtist þó annað vera uppi á teningnum, og byrjuðu Stólarnir mikið mun betur og virtust grimmari og hungraðri í sigur. Vörn heimamanna var ótraust og áttu leikmenn gestanna auðvelt með að skora þau stig sem þeir þurftu, og þó sérstaklega Þröstur Leó , sem átti úrvals leik. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-18 gestunum í vil, og heimamenn í ruglinu.
Í öðrum leikhluta var annað uppi á teningnum. Þórsarar skelltu í lás í vörninni og byrjaði Guðmundur Jónsson að gera það sem hann gerir best. Þórsarar frumsýndu nýjan leikmann í kvöld, Ástrala, sem gat lítið sem ekki neitt, og spyr maður sig hvort að hann sé peninganna virði þó svo að maður ætti að spara það að dæma menn af fyrsta leik. Virtist ferðalagið frá ,,The Land Down Under“ þó sitja eitthvað í kappanum, enda ferðalagið þremur klukkustundum lengra en ferð til tunglsins. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 36-30, og virtust heimamenn ætla að rífa sig upp og klára leikinn.
Það var þó mikið langt frá því að vera staðreyndin, og sigruðu Tindastólsmenn 3. leikhluta 10-25! Og þar kemur sterkt inn framtak dómaranna, sem voru gjörsamlega í ruglinu í leiknum.Trekk í trekk fengu gestirnir gefins dóma sem voru gjörsamlega útí hött, og var Benedikt þjálfari Þórsara farinn að hita te á enninu á sér af reiði. Útlendu leikmenn Þórsara voru mikið langt frá sínu besta og var stigaskor þeirra: Darrin – 18, Ringold – 4, Marco – 5 og svo Ástralinn eitraði með 9 stig.
Fyrir lokaleikhlutan var 9 stiga munur á liðunum og Stólarnir voru með augun á verðlaununum. Dómararnir létu ljós sitt skína í 4. leikhluta og voru áhorfendur leiksins ekki langt frá því að hefja uppþot. Augljós skref á gestina, og einhver augljósasta sóknarvilla síðari ára voru dómar sem dómarar leiksins létu kyrra liggja á ,,krúsjal“ mómentum.
Leikurinn endaði 74-78 Tindastólsmönnum í vil, og er svosem alveg sanngjarnt að segja að þeir hafi átt sigurinn skilinn. Þeir börðust vel og uppskáru eftir því og hafa nú unnið fjóra deildarleiki í röð og því heitasta lið landsins um þessar mundir.
Stigaskor:
Þór Þorlákshöfn: Guðmundur Jónsson 19/8 stolnir, Darrin Govens 18/8 fráköst/5 stoðsendingar, Baldur Þór Ragnarsson 11/6 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 9, Darri Hilmarsson 8/4 fráköst, Marko Latinovic 5, Michael Ringgold 4/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.
Tindastóll: Þröstur Leó Jóhannsson 18/5 fráköst, Maurice Miller 18/11 fráköst/7 stoðsendingar, Svavar Atli Birgisson 14/7 fráköst, Curtis Allen 9, Helgi Freyr Margeirsson 7/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 6/5 fráköst, Friðrik Hreinsson 3, Hreinn Gunnar Birgisson 3, Sigurður Páll Stefánsson 0, Rúnar Sveinsson 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Loftur Páll Eiríksson 0.
Mynd/Davíð Þór– Guðmundur Jónsson gerði 19 stig fyrir nýliða Þórs í kvöld. Til varnar er nýjasti liðsmaður Tindastóls, Curtis Allen.
Umfjöllun: Heimir Snær Heimisson