spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStólarnir gerðu sópinn tilbúinn

Stólarnir gerðu sópinn tilbúinn

Tindastóll lagði Keflavík í Blue höllinni í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita Bónus deildar karla, 93-96.

Stólarnir því komnir með 2-0 forystu í einvíginu og geta með sigri í næsta leik tryggt sig áfram í undanúrslitin.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur í upphafi og munaði ekki miklu á liðunum. Voru það þó heimamenn í Keflavík sem leiddu með tveimur stigum að fyrsta fjórðung loknum. Undir lok fyrri hálfleiksins er það svo oftar en ekki Tindastóll sem er skrefinu á undan, en þó eru þeir aðeins þremur stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stólarnir ná sínu besta áhlaupi í leiknum í upphafi seinni hálfleiksins og eru snöggir að koma forskoti sínu í tveggja stafa tölu. Heimamenn ná þó að vinna það niður og eru það þeir sem leiða með minnsta mun mögulegum fyrir lokaleikhlutann. Stólarnir leiða svo lungann úr fjórða leikhlutanum og gera afskaplega vel að sigla sigrinum heim á lokamínútunum, 93-96, en Keflavík fékk gott skot til að jafna leikinn þegar að klukkan rann út, en allt kom fyrir ekki.

Atkvæðamestir fyrir Keflavík í leiknum voru Hilmar Pétursson með 20 stig, 5 fráköst og Ty Shon Alexander með 22 stig og 4 fráköst.

Fyrir Tindastól var Dimitrios Agravanis atkvæðamestur með 26 stig og 7 fráköst. Honum næstur var Dedrick Basile með 23 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.

Stólarnir munu freista þess að sópa Keflavík í sumarfrí í þriðja leik liðanna, en hann fer fram í Síkinu á Sauðárkróki komandi fimmtudag 10. apríl.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -