Tindastóll náði ekki að tryggja áfram í riðlakeppni FIBA Europe Cup í dag þar sem liðið tapaði fyrir Trepca frá Kósovó í Eistlandi.
Um er að ræða þriggja liða forkeppni mótsins þar sem efsta liðið gat unnið sér inn sæti í riðlakeppninni, en Stólarnir höfðu lagt lið Parnu í gær.
Tindastóll mætti nokkuð vel til leiks í dag og leiddu þeir með 5 stigum í hálfleik, 39-34. þeir ná svo að hanga á forystunni í upphafi seinni hálfleiks, en menn Trepca voru aldrei langt undan og var munurinn aðeins 3 stig fyrir lokaleikhlutann, 53-50. Með góðu áhlaupi í upphafi þess fjórða nær Trepca yfirhöndinni í leiknum. Undir lokin má svo segja að þeir hafi siglt nokkuð öruggum sigur í höfn, 69-77.
Atkvæðamestur fyrir Tindastól í leiknum var Callum Lawson með 17 stig, 7 fráköst og þá bætti Þórir Guðmundur Þorbjarnarson við 16 stigum og 4 fráköstum.
Einn leikur er eftir í þessari forkeppni og er hann á milli Parnu og Trepca á morgun. Fari svo að Parnu leggji Trepca eru liðin öll með einn sigur og þá skiptir innbyrðisstigamunur þeirra máli. Tindastóll lagði Parnu með 7 stigum í gær, 62-69 og tapa leiknum í dag með 8 stigum, 69-77 og eru því með -1 í stigatölu, en sökum þess er ómögulegt fyrir Tindastól að komast beint áfram hvernig sem leikurinn fer á morgun. Það má þó vera að Tindastóll verði með einn besta árangur liðs í öðru sæti riðils ef Trepca vinnur á morgun, en tveimur liðum úr öðru sæti síns riðils verður boðin þátttaka í riðlakeppninni.
Liðið sem vinnur þessa forkeppni mun fara í G riðil keppninnar með Hapoel Galil Elion frá Ísrael, ZZ Leiden frá Hollandi og BCM Gravelines Dunkerque frá Frakklandi, en fyrsti leikur þar er 18. október gegn Hapoel Galil Elion úti í Ísrael.
Grafík / Halldór Halldórsson