Blikar spiluðu í kvöld sinn fyrsta heimaleik í úrvalsdeild karla í körfubolta í háa herrans tíð. Þeir fengu nágranna sína frá Garðabæ í heimsókn og ólíkt skemmtilegra að berjast við þá í móðuríþróttinni fremur en tuðrusparki. Blikar áttu ágætan leik í fyrstu umferð gegn Grindavík þrátt fyrir tap en gestunum dugði seinni hálfleikurinn til að leggja ÍR að velli.
Spádómskúlan: Kúlan er 0-3 sem af er tímabilinu og þarf að huga að grunninum í spámennsku. Grunnurinn í spámennsku er ekki vörnin, heldur staðreyndir. Blikar hafa ekki unnið leik í efstu deild síðan enginn veit hvenær en Stjörnumönnum er spáð deildarmeistaratitli. 75-90 eru því augljóslega verðandi úrslit í þessum leik.
Byrjunarlið:
Blikar: Covile, Erlendur, Snorri H., Snorri V., Arnór
Stjarnan: Pryor, Hlynur, Ægir, Kanervo, Paul Jones
Gangur leiksins
Finninn snjalli, Antti Kanervo var jökulkaldur í fyrsta leik en setti fyrstu 5 stigin í kvöld. Heimamenn létu það ekkert á sig fá og voru fljótir að jafna leikinn með sínum þrælskemmtilega hlaupa-skjóta-leik. Arnór Hermanns hóf svo hörkugóðan kafla Blika með snöggum fimm stigum sem Hilmar, Bjarni og Árni fylgdu eftir með þristum. Það er sennilega vinnuregla hjá Blikum að allir sem koma inn á verða að smella í einn þrist fljótlega eftir að þeir stíga inn á völlinn! Blikar náðu mest 26-15 forskoti. Dúi Jóns kom þá sterkur til leiks fyrir gestina og sá til þess að staðan var 27-23 eftir fyrsta.
Minni sveiflur voru í öðrum leikhluta og jafnt á öllum tölum. Blikar héldu áfram að deila með sér stigaskorinu en Antti var allt í öllu fyrir gestina og áhorfendur fengu að sjá sýnishorn af því hvað hann getur. Hann setti einhver 11 stig í röð fyrir sína menn og átti ekki síst heiðurinn af 44-47 forystu gestanna í hálfleik. 8 leikmenn Blika voru komnir á blað í hálfleik og 7 hjá gestunum. Covile var stigahæstur með 14 en Antti með 16 hinum megin.
Snorri Vignis var sjóðandi heitur í byrjun seinni hálfleiks og skoraði alls kyns körfur sem kom heimamönnum í 57-55. Paul Jones hafði ansi hægt um sig í fyrri hálfleik en svaraði fyrir gestina en þessi maður virðist alltaf geta skorað, bara ef hann nennir því. Antti hitnaði svo aftur en Snorri Vignis og Covile svöruðu um hæl. Geggjaður körfubolti í boði og staðan svo að segja jöfn, 72-74, eftir frábæran leikhluta.
Undirritaður á erfitt með að átta sig á því hvað gerðist í fjórða leikhluta. Helst má benda á frekar vondar ákvarðanir heimamanna sóknarlega eða kannski bara verri hittni. Stjarnan hefur á að skipa reynsluboltum og kannski var það munurinn í kvöld. Heimamenn skoruðu aðeins 2 stig á fyrstu 5 mínútum leikhlutans eða svo og tveir þristar frá Hlyni komu gestunum í 74-89 þegar leikhlutinn var akkúrat hálfnaður. Þar voru úrslitin nánast ráðinn og vonin um spennandi lokamínútur hrifsuð skyndilega frá áhorfendum. Munurinn haggaðist ekki síðustu mínútur og niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur 87-102 sigur gestanna í mjög skemmtilegum leik – og jöfnum fram eftir öllu.
Menn leiksins
Hlynur og Finninn snjalli, Antti Kanervo gerðu gæfumuninn í kvöld. Hlynur skilaði 15 stigum, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum en Antti setti heil 29 stig. Hann mun vafalaust þjóna hlutverki stigamaskínu í fleiri leikjum í vetur.
Kjarninn
Stjörnumenn voru aftur frekar seinir af stað í þessum leik líkt og gegn ÍR í fyrstu umferð. Arnar sagði í viðtali eftir leik að vörnin væri bara alls ekki nógu góð nú í byrjun tímabils og það væri helsta áhyggjuefnið. Það er vafalaust rétt greining, enda hefur liðið fullt af sóknarvopnum sem hafa bitið ágætlega ef undanskilinn er fyrri hálfleikurinn gegn svæðisvörn ÍR-inga.
Blikar spila afskaplega skemmtilegan bolta, a.m.k. að mati undirritaðs, og hvetur alla til að smella sér á leik með þessu liði. Þeir spila hratt og kannski svolítið villt, hika aldrei við að láta þrista fljúga og virðast hafa bara mjög gaman af þessu. Það væri líka fáránlegt að spila körfubolta í fýlu. Liðið hefur þó tapað fyrstu tveimur en sigrar munu detta í hús án nokkurs vafa, fyrr en síðar.
Tölfræði leiks
Myndasafn
Umfjöllun / Kári Viðarsson
Myndir / Bjarni Antonsson