Tomsick skaut Stjörnumenn hálfa leið að deildarmeistaratitlinum
Stjörnumenn treystu stöðu sína á toppi Domino´s deildar karla þegar liðið lagði Keflavík í Blue höllinni í kvöld í f´rabærum körfuboltaleik þar sem andar úrslitakeppninnar svifu yfir vötnum. Hetjan, einu sinni sem oftar, var Nick Tomisck sem skaut sína menn fram fyrir Keflvíkinga á síðustu mínútum leiksins. Lokatölur 77-83.
Það var vel mætt í Blue höllina en þó hefði verið við hæfi að fylla í kofann í tilefni þess að hér voru að mætast efstu lið deildarinnar í hreinu uppgjöri um toppsætið. Áskrift að Stöð2 sport er greinilega staðalbúnaður á heimilum í Garðabæ og stúkan bar þess merki. Engu að síður áþreifanleg eftirvænting og góð stemmning í húsinu og létu gestirnir vel í sér heyra þrátt fyrir að hafa komið saman á ca. þremur bílum til Keflavíkur.
Byrjunarlið Keflavíkur:
Khalil Ahmad – Guðmundur Jóns – Domynikas Milka – Deane Williams – Hörður Axel
Byrjunarlið Stjörnunnar:
Urald King – Kyle Johnson – Hlynur Bæringsson – NikolasTomsick – Ægir Steinarsson
Gangur leiksins
Leikmenn beggja liða létu vel finna fyrir sér strax í byrjun leiks og barist um hvert einasta frákast eins og um síðasta kexið í skálinni væri að ræða. Liðin skiptust á að leiða en aldrei munaði meira en þremur stigum. Staðan eftir 1. leikhluta 17-19 fyrir Stjörnuna þar sem Domynikas Milka var kominn með 10 stig fyrir heimamenn en hinum megin voru margir að leggja í púkkið og varamenn að koma vel stemmdir inn og að setja þristana sína.
Það var sama jafnræðið með liðunum fyrstu 5 mínúturnar í 2. leikhluta áður en ákefð Stjörnumanna fór að síga í fyrir Keflvíkinga. Khalil Ahmad var í strangri gæslu Ægirs Steinarssonar sem andaði ofan í hálsmálið á honum og fylgdi honum hvert fótatak auk þess að leiða sókn gestanna af mikilli prýði. Stjörnumenn náðu að slíta sig frá heimamönnum með aggressívri vörn og refsistigum í kjölfarið og komust í 11 stiga forystu þegar rúmar 3 mínútur voru til hálfleiks. Khalil vaknaði svo til lífsins og fór að draga Keflavíkurvagninn sóknarmeginn en Stjörnumenn, með sitt djúpa vopnabúr og 16 stig af bekknum, héldu áfram að finna leiðina að körfunni og leiddu 35-44 í hálfleik.
Heimamenn skiptu tímabundið í 1-3-1 svæðisvörn sem vankaði gestina í byrjun síðari hálfleiks og 9-0 kafli fylgdi. Skyndilega var forysta Stjörnunnar horfin og nú var það Arnars Guðjónssonar að bregðast við þessu útspili Hjalta Vilhjálmssonar. Í gang fóru æsilegar mínútur þar sem liðin skiptust á höggum og hitastigið reis við hvert knattrak og hverri körfu fagnað sem þeirri mikilvægustu í sögu íþróttarinnar. Eðalstöff. Keflvíkingar hrifsuðu keflið og leiddu fyrir lokaleikhlutann með 2 stigum, 60-58. Taktfastur La Bamba ómaði í hljóðkerfinu milli leikhluta og hélt stemmningunni gangandi. Janúar-þunglyndi og lægðir vinsamlegast afþakkaðar við hurð.
Baráttan á gólfinu var ógurleg, leikmenn skutlandi sér á eftir öllu hringlaga sem hreyfðist og áhorfendur vel með á nótunum. Hörður Axel og Nick Tomisck settu sitt hvorar tvær körfurnar og fade-away þristur Hlyns Bæringssonar úr horninu jafnaði metin í slétt 68 stig á kjaft. Liðin fóru í þriggja stiga skotkeppni næstu mínútur þar sem hittnin var með ólíkindum. Það gjörsamlega logaði í Nick Tomsick sem hefði getað staðið alla með Króatísku 6-0 handboltavörnina í andlitinu á sér og það hefði engu breytt. 77-77 þegar 90 sekúndur voru eftir. Það var viðeigandi að téður Tomsick setti því næst frábært skot eftir gegnumbrot hátt yfir langa hramma Deane Williams til að koma gestunum yfir. Hlynur Bæringsson gerði svo vel að ná puttum á sendingu Harðar Axels inn í teiginn og Ægir Steinarsson setti 2 víti til að keyra muninn í 4 stig þegar 15 sekúndur voru eftir. Keflvíkingum tókst ekki að vinna upp muninn á þessum tíma og Stjörnumenn fögnuðu sætum sigri 77-83.
Tölfræði sem lýgur ekki
Það er erfitt og ósanngjarnt að fara að rýna í einhvern einn þátt sem lokar leiknum í eins jöfnum leik og við urðum vitni að í kvöld. Eitt þriggja stiga skot til eða frá og við gætum séð aðra útkomu. Það sem helst er hægt að rýna í eru 21 stig sem Stjarnan fær frá varamönnum sínum á móti 2 frá Keflavíkurbekknum. Álagið dreifist mjög vel og allir eru sáttir við sín hlutverk í jafn vel mönnuðu liði og Stjarnan hefur yfir að búa. Mögulega gæti það verið svarið við því að Nick Tomsick virtist eiga nóg á tanknum þegar leikurinn var undir en það eru auðvitað fullyrðingar sem ekki er hægt að sanna með öllu. Eitt er víst að þessi lið hreinlega verða að mætast í seríu í vor á leið sinni að titlinum. Annað væri hreinlega svik og prettir gagnvart körfuboltaáhugamönnum.
Bestir á vellinum
Nick Tomsick (maður leiksins) sýndi að hann er einn besti leikmaður deildarinnar þegar hann fær lyklana að bílnum. Frammistaða hans í lokaleikhlutanum var ótrúleg er hann setti Stjörnuliðið á bakið og þrammaði með það yfir endalínuna. 13 af 16 stigum hans komu á síðustu 4 mínútum leiksins. Steig upp á hárréttum tíma og skilaði auk þess góðri varnarvinnu.
Ægir Steinarsson, 11 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar var frábær auk þess að spila vörnina af sama fítonskrafti allan leikinn.
Hlynur Bæringsson, 12 stig og öll úr 3ja stiga skotum, átti góðan leik báðum meginen hann fékk einnig það erfiða hlutskipti að eiga við Milka í teignum og getur gengið sáttur frá borði.
Urald King skilaði líka sínu með 16 stig og 8 fráköst. Þó nokkr stiga hans komu eftir sóknarfráköst. Mikil vinnsla í honum að venju.
Hjá heimamönnum var Deane Williams stigahæstur með 23 stig og 13 fráköst. Hann steig vel upp í síðari hálfleik og setti mikilvæga þrista þegar Stjörnumenn veðjuðu á að skilja hann eftir sem fórnarkostnað við varnarleik sinn.
Hörður Axel Vilhjálmsson átti skínandi leik með 10 stig og 13 stoðsendingar og þá var Domynikas Milka að venju drjúgur með 20 stig og 11 fráköst en dró eilítið af honum í baráttu sinni við Hlyn og fór mikil orka í allar stöðubaráttur.
Hvað þýða úrslitin?
Stjarnan trónir eitt liða á toppi deildarinnar með 4 stiga forskot á Keflavík og fer að glytta í annan deildarmeistaratitilinn við sjóndeildarhringinn. Keflavík er þó með innbyrðisúrslit á Stjörnuna ef ske kynni að Garðbæingar færu að misstíga sig illa í lokaumferðunum.