Stjarnan tryggði sér tvö stig í kvöld þegar liðið tók á móti Grindavík í Ásgarði. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en gestirnir frá Grindavík sátu þó í bílstjórasætinu megnið af leiknum. Stjarnan náði yfirhöndinni í upphafi fjórða leikhluta og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Þær lönduðu að lokum góðum 8 stiga sigri, 67-59.
Viðsnúningurinn
Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur og þó svo að Grindavík hafi leitt megnið af öðrum og þriðja leikhluta, þá náðu þær aldrei að setja meira en 9 stig á milli sín og Stjörnunnar. Danielle Rodriguez jafnaði fyrir Stjörnuna þegar skammt lifði þriðja leikhluta, því allt í járnum og staðan jöfn fyrir lokafjórðunginn. Í upphafi fjórða leikhluta setti áðurnefnd Danielle Rodriguez niður sniðskot og fékk víti að auki og virtist þetta kveikja í Stjörnustúlkum. Þær héldu gestunum frá Grindavík stigalausum fyrstu fjórar mínútur fjórðungsins, náðu að byggja upp 7 stiga forskot á þeim tíma og lögðu grunn að sigrinum í kvöld.
Hetjan
Danielle Rodriguez var atkvæðamest Garðbæinga í kvöld með 32 stig, 10 fráköst og 6 varin skot. Ragna Margrét sem hafði nælt sér í sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta, lét til sín taka í sóknarleiknum þegar á þurfti að halda í fjórða leikhluta og skoraði 9 stig fyrir Stjörnuna í fjórðungnum.
Tölfræðin lýgur ekki
Stjörnunni gekk illa að skora í fyrri hálfleik og voru einungis með 29% (13/45) nýtingu í skotum á móti 40% (12/30) nýtingu hjá Grindavík. Heimakonur sóttu þó grimmar sóknarfráköstin og tóku samtals 16 sóknarfráköst í fyrri hálfleik á móti 4 sóknarfráköstum Grindavíkur. Munurinn á liðunum í hálfleik því ekki nema 6 stig Grindavík í vil, þrátt fyrir þennan mun í skotnýtingu. Tapaðir boltar urðu Grindvíkingum dýrkeyptir undir lok leiksins en þær töpuðu 6 boltum í síðasta fjórðungnum á móti 2 töpuðum boltum Stjörnunnar.
Kjarninn
Eftir góða byrjun á tímabilinu hafði Stjarnan tapað síðustu tveimur leikjum, heima á móti Snæfelli og úti á móti Haukum. Því var mikilvægt fyrir þær að snúa spilinu við með sigri í kvöld sem þær og gerðu. Sigur var ekki síður mikilvægur fyrir Grindivík sem hefði getað fylgt eftir góðum sigri á Snæfelli í síðustu umferð og lyft sér upp að hlið Stjörnunnar og Njarðvík á stigatöflunni. Leikurinn í kvöld var þó ekki mikið fyrir augað og virkaði sóknarleikur beggja liða stirður á köflum og einstaklingsframtakið spilaði of stórt hlutverk.