spot_img
HomeFréttirStjörnumenn í 8-liða úrslit

Stjörnumenn í 8-liða úrslit

Stjarnan tók í dag á móti KFÍ í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla. Liðin mættust fyrir fáeinum dögum í Domino’s deildinni þar sem Garðbæingar mörðu sigur í framlengingu.
Ísfirðingar mættu með einungis 7 menn á skýrslu í dag, en byrjuðu þó mun betur. Kristján Andrésson fór mikinn í liði gestanna og var um miðjan fyrsta leikhluta kominn með 12 stig.
 
Brian Mills fór einnig hamförum hjá Stjörnunni og skoraði fyrstu 13 stig liðsins. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-21, gestunum í vil.
 
Mills hélt áfram stórleik sínum í öðrum leikhluta, og réðu gestirnir lítið við kappann. Jafnræði var með liðunum allan leikhlutann og héldu KFÍ heimamönnum í skefjum, að Mills frátöldum. Einungis munaði einu stigi á liðunum í hálfleik, staðan 42-41, og Brian Mills með 22 stig.
 
Í síðari hálfleik sigu Stjörnumenn jafnt og þétt fram úr og augljóst að mannekla gestanna háði þeim mjög. Stjörnumenn hafa hins vegar flotta breidd í sínu liði og gátu róterað vel. Fór svo að lokum að Stjarnan vann 19 stiga sigur, 97-78, og eru því komnir í 8-liða úrslit Powerade bikars karla í ár.
 
Brian Mills hafði hægar um sig í síðari hálfleik og endaði leikinn með 26 stig. Hjá fáliðuðum Ísfirðingum var Tyrone Bradshaw atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst.
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson  
Fréttir
- Auglýsing -