Það hefur verið stjörnubjart og fagurt yfir að líta í Garðabænum það sem af er tímabili. Fyrir utan ekki alveg nógu vel heppnað ferðalag á Krókinn hafa Stjörnumenn haft betur í öllum leikjum sínum og unnið þá suma með miklum yfirburðum. Þeir sitja líka einir á toppi Bónusdeildarinnar með 8 sigra og eingöngu eitt tap.
Gestir kvöldsins í 10. umferðinni komu frá Kef City. Það hefur ekki verið alveg jafn Sunny yfir þessu hjá Keflvíkingum eins og þeir höfðu vonast eftir fyrir tímabilið en liðið situr í 4.-6. sæti með 5 sigra, 4 töp. Með komu finnsks landsliðsmanns, Remu Raitanen, og fyrrum NBA-leikmannsins Ty-Shon Alexander er hækkandi sól mögulega á næsta leiti í Bítlabænum. Verða stjörnur eða sól í kvöld, Kúla góð?
Kúlan: ,,Skil ekki þessa fáránlegu spurningu, lítið um sól á kvöldin í desember…en get fullyrt að topplið Stjörnunnar vinnur þennan leik örugglega, 105-89. Það þarf nefnilega að spila vörn, ekki bara skora, og það gera heimamenn betur“.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
Keflavík: Halldór Garðar, Ty-Shon, Reischel, Jaka, Marek
Gangur leiksins
Shaq Rombley og Ty-Shon gengu til einvígis fyrstu mínútur leiksins, settu báðir 8 stig fyrir sín lið og hnífjafnt 9-9. Sóknarvél gestanna hrökk svo rækilega í gang og gestirnir komu sér framúr. Igor Maric hefur verið að raða niður þristum eins og vélmenni að undanförnu, setti niður tvo fáránlega þrista í fyrsta leikhluta, þann seinni á flautunni spjaldið ofan í og Kef City leiddi 20-28 eftir einn.
Gestirnir áttu fyrstu körfu annars leikhluta en múrinn frægi stóð ekki lengi því heimamenn svöruðu fyrir sig. Stjörnumenn voru að vanda grimmir í sóknarfráköstum og færðust hægt og rólega nær Keflvíkingum. Um miðjan leikhlutann stóðu leikar 33-36, jafn og skemmtilegur leikur í gangi. Undirritaður hafði þá tilfinningu að toppliðið væri smátt og smátt að ná tökum á leiknum en það var ekki fyrr en rétt fyrir hálfleikinn sem Hilmar Smári jafnaði og kom sínum mönnum yfir með þristi, 46-44. Remu Raitanen átti hins vegar lokaorðið fyrir pásuna, jafnaði í 50-50 með þristi og allt eins og það á að vera.
Keflvíkingar áttu einnig fyrsta innleggið í þriðja leikhluta í formi þrists frá Jaka. Við tók hins vegar kafli sem mögulega lagði grunninn að Stjörnusigri. Heimamenn höfðu sennilega rætt um það í klefanum að herða tökin varnarlega og tóku á 14-0 sprett. Það var eins og piltarnir frá Sunny-Kef væru undir álögum á þessum kafla, Marek að klúðra galopnum sniðskotum og ég veit ekki hvað. Ekki dugði minna en spjaldþrist frá Vélmenninu til að hnekkja álögunum fyrir gestina, staðan 64-56 um miðjan leikhlutann. Fyrir lokafjórðunginn höfðu Stjörnumenn 5 stiga púða, staðan 72-67.
Heimamönnum tókst aldrei að hrista gestina af sér í fjórða leikhlutanum en héngu ávallt á 3-8 stiga forystu. Maric minnkaði muninn í 4 stig þegar 4 mínútur voru eftir en landsliðsmaðurinn Orri Gunn svaraði því bara með þristi og tveimur stigum til viðbótar í framhaldinu og aftur glitti í múrinn, staðan 88-78. Keflvíkingar svöruðu að bragði og Remu hleypti smá spennu í leikinn er hann minnkaði muninn í þrjú stig með þristi, 90-87, þegar rúm mínúta var eftir. Febres slökkti jafnharðan í þeirri vonarglóð með þristi í næstu sókn og einungis 50 sekúndur eftir. Gestirnir neyddust til að fara í villuleikinn í lokin en Hilmar Smári ísaði leikinn með fjórum vítum. Lokatölur urðu 97-93, góður sigur toppliðsins í skemmtilegum leik.
Menn leiksins
Shaq Rombley átti sennilega sinn besta leik fyrir Stjörnuna í kvöld, setti 29 stig og tók 12 fráköst. Vinirnir Hilmar og Orri spiluðu einnig mjög vel að vanda. Hilmar setti 22 stig og gaf 5 stoðsendingar, Orri 16 stig og tók 7 fráköst.
Ty-Shon var stigahæstur gestanna með 22 stig og tók 5 fráköst, vélmennið Maric henti niður 19 stigum af bekknum, 5/6 í þristum!
Kjarninn
Stjörnumenn sýndu í kvöld að þeir eru án vafa með besta lið landsins hingað til á þessu tímabili. Ekki er yfir neinu að kvarta, liðið er 9/1. Það segir sig nánast sjálft að það er góð stemmning í herbúðum Stjörnumanna en Orri Gunn staðfesti það í stuttu spjalli eftir leik. En tímabilið er ekki enn hálfnað og kannski helsta verkefni Stjörnunnar að halda sér passlega nálægt jörðu á næstu vikum.
Pétur Ingvars var sæmilega brattur í viðtali eftir leik þrátt fyrir ósigur. Ty-Shon og Remu hafa litið vel út í þessum fyrstu leikjum sínum fyrir liðið og góðar líkur á hækkandi sól á komandi vikum. Þegar Pétur verður kominn úr jólapeysunni í janúar þá fer allt á blússandi siglingu í Sunny-Kef, engin spurning!